„Við höggumst ekki“

Sólveig Lára Kjærnested með skot að marki í sigrinum á …
Sólveig Lára Kjærnested með skot að marki í sigrinum á ÍBV. mbl.is/Styrmir Kári

Stjörnukonan Sólveig Lára Kjærnested var ánægð með eins marks sigur, 30:29, á ÍBV um helgina í Olís-deildinni í handknattleik. Sigur Garðbæinga var mikilvægur í þeirri hörðu baráttu sem ríkir í efri hluta deildarinnar þar sem barist er um hvert stig sem í boði er.

„Þessi sigur var mikilvægur, eins og allir sigrar. Þetta er náttúrlega svaka pakki þarna efst þannig að öll stig skipta máli,“ sagði Sólveig í samtali við Morgunblaðið. Hún skoraði sjö mörk í leiknum og var markahæst Stjörnukvenna ásamt Helenu Rut Örvarsdóttur.

Þrátt fyrir að hafa lagt Eyjastúlkur að velli í Mýrinni á laugardag er Stjarnan enn í sjötta sæti deildarinnar með 24 stig. Fimm stigum ofar er topplið Gróttu en Haukar og ÍBV eru með 28 stig í 2.-3. sætinu. „Við höggumst ekki! Við töpuðum stigum á móti Val í síðustu umferð og það var dýrt. Öll stig sem maður tapar eru rosalega dýr,“ sagði Sólveig.

Hún segir að það sé gott að komast aftur á sigurbraut eftir tapið gegn Val en Hlíðarendaliðið vann Stjörnuna, 19:18, fyrir rúmri viku. Fyrir þann leik hafði Stjarnan unnið sjö leiki í röð. „Við áttum mjög slakan leik gegn Val þannig að það var fínt að ná sigri í gær (á laugardag).“

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert