Klofnar evrópskur handbolti með nýrri deild?

Guðjón Valur Sigurðsson fagnar með samherjum sínum eftir að Barcelona …
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar með samherjum sínum eftir að Barcelona fagnaði sigri í Meistaradeild Evrópu á síðasta vori. AFP

Þeir ætla sér að bylta handboltaheiminum með nýrri deild 12 til 24 handknattleiksliða, aðallega frá Evrópu, með kappleikjum í mörgum af stærstu borgum Evrópu. Þannig á að koma handboltanum á kortið um allan heim, auka áhugann og tekjur liðanna sem taka þátt.

Þetta er m.a. hugmynd nokkurra manna með stofnun Premier Handball League, PHL, sem ráðgert er að keppni hefjist í 2019 gangi áætlanir eftir. „Ætlun okkar er færa handboltann inn í stórar hallir stórborga Evrópu þar sem hver leikur verður stórviðburður,“ segir Wolfgang Gütschow, stjórnarformaður svissnesks fyrirtækis sem vinnur að því að hrinda þessu verkefni í framkvæmd í samkeppni við Handknattleikssamband Evrópu, EHF. Gütschow hefur ekki útlokað samstarf við Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF.

Engum blöðum er um það að fletta að þessari nýju deild er stefnt til höfuðs Meistaradeild Evrópu. Forsvarsmenn PHL réðu á dögunum Austurríkismanninn Peter Vargo til starfa en Vargo er maðurinn á bak við einstaklega vel heppnaða úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu síðustu árin.

Engan skal undra að skjálfti ríki innan EHF sem vill sem minnst vita af forrráðmönnum PHL. Ráðningin á Vargo sýnir að mönnum er full alvara með hugmyndum sínum.

Meistaradeild Evrópu hefur verið flaggskip EHF á síðustu árum. Vandað hefur verið í umgjörð kappleikja, þeim fjölgað, vinsældir aukist meðal sjónvarpsáhorfenda auk þess sem sífellt meira púður hefur verið sett í úrslitahelgina, Final4, í Köln. Staðreyndin er hinsvegar sú að þátttakan þar hefur ekki reynst gullkista fyrir þátttökuliðin.

Forsvarsmenn PHL ætla sér að markaðssetja deildina á heimsvísu með sjónvarpssamningum um allan heim. Hver leikur verður stórviðburður um allan heim. Einhverjir kappleikir verða jafnvel á framandi slóðum handboltamanna, s.s. í Mið-Austurlöndum og Kína.

Um leið hafa menn í hyggju að taka upp nýjungar í kappleikjum, s.s. að setja upp skotklukku til þess að takmarka lengd hverrar sóknar. Einnig hafa menn í sigtinu að reyna að einfalda reglur leiksins og fækka vafaatriðum án þess að útskýra það frekar enn sem komið er. Allt til þess að gera handboltann sem „sjónvarpsvænstan“, ekki síst fyrir bandarískan markað sem forsvarsmenn PHL horfa til.

Herja á stórborgir

Reiknað er með a.m.k. 12 lið taki þátt í deildinni og þau leiki heimaleiki sína í stærri borgum Evrópu enda séu þau frá borgunum eða hafa aðsetur í nálægð borganna. Meðal þeirra félaga sem nefnd hafa verið hugsanlegir þátttakendur eru þýsku liðin THW Kiel og Füchse Berlín, Veszprém frá Ungverjalandi, Vive Kielce frá Póllandi og PSG í Frakklandi.

Danski skartgripasalinn Jesper Nielsen hefur lýst því yfir að hann ætli að senda lið til keppni í PHL. Hvort honum tekst að koma nýju liði á fót er svo önnur saga en margir bera takmarkað traust til hans eftir að AG Köbenhavn fór lóðrétt á hausinn sumarið 2012 að undangenginni nokkurra ára flugeldasýningu sem takmörkuð innistæða virtist vera fyrir.

Ljóst þykir vera að ef af þessu verður mun fjöldi evrópskra félaga, jafnvel þau bestu, nánast segja sig úr lögum við EHF.

Gütschow segir að vel komi til greina að félög utan Evrópu taki þátt og hefur hann m.a. nefnt að áhugi sér fyrir hendi hjá félagsliði í Katar. Eins segir Gütschow í fyrrgreindu viðtali að hvaða borg Evrópu komi til greina að því uppfylltu að þar hafi bækistöðvar stórlið sem geti keppt á meðal þeirra bestu. Meðal annarra borga sem hann nefnir eru Vínarborg, Amsterdam, Zürich, St. Pétursborg og Reykjavík.

Tekið tillit til stórmóta

Gütschow segir ennfremur að þess verði gætt við uppröðun leikja hinnar nýju keppni að ekki verði árekstrar milli leikja liðanna í sínum landsdeildum og í PHL-deildinni. Þá verður tekið tillit til stórmóta landsliða eins og HM, EM og Ólympíuleika. Hinsvegar er alveg ljóst þátttökulið PHL-deildarinnar taka ekki þátt í Meistaradeildinni eða EHF-keppninni á vegum EHF.

Gert er ráð fyrir að keppnistímabilið í PHL standi yfir frá febrúar og fram í desember en ekki verður leikið yfir sumarmánuðina enda leikmenn þá annaðhvort í sumarfríi eða við undirbúning fyrir næstu leiktíð.

Eftir deildarkeppni þar sem allir leika við alla verður úrslitahelgi þar sem fjögur bestu liðin munu reyna með sér og keppast um meistaratitil deildarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert