Hafði aldrei áhyggjur

„Mér fannst við hafa tök á leiknum frá upphafi þótt Fylkisliðinu hafi tekist að minnka muninn í eitt mark nokkrum sinnum," sagði Kristín Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, eftir níu marka sigur á Fylki, 34:25, í Olís-deild kvenna í handknattleik í Fylkishöllinni í dag. 

„Ég hafði ekki miklar áhyggjur. Við vorum allar tilbúnar í leikinn og þá er maður bara rólegur," sagði Kristín ennfremur.  „Það tók okkur tíma að ná afgerandi forskoti en það það var í höfn í síðari hálfleik þá var ekki að sökum að spyrja," sagði Kristín en með sigrinum heldur Valsliðið fjórða sæti deildarinnar og er aðeins þremur stigum á eftir toppliði Gróttu sem vann Selfoss örugglega í í dag. 

Kristín segir að deildin sé jöfn og skemmtileg og það sé langt síðan hún hafi tekið þátt í eins jafnri keppni og er í Olís-deildinni á þessari leiktíð. „Það er bara virkilega gaman að það sé keppni í nær öllum leikjum og að maður hafi smá fiðring í maganum áður en gengið er til leiks," sagði hin reynda Kristín Guðmundsdóttir.

Nánar er rætt við Kristínu á meðfylgjandi myndskeiði. 

Stórsigur Valskvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert