„Þurfum að fokking hreinsa kollinn“

Davíð Svansson var magnaður í markinu hjá Aftureldingu í dag, …
Davíð Svansson var magnaður í markinu hjá Aftureldingu í dag, en það dugði þó ekki til. Árni Sæberg

„Nei, ég gerði ekki nóg. Menn þurfa að gera allt sem þarf til þess að vinna, ekki næstum því, ekki reyna, heldur gera það,“ sagði Davíð Svansson, markvörður Aftureldingar, eftir 30:29 tap gegn Haukum í 4. leik þessara liða í úrslitaeinvíginu í handknattleik í kvöld. Liðin mætast í oddaleik á fimmtudag.

Davíð var magnaður í rammanum hjá Aftureldingu í dag en hann varði samtals sextán bolta og hélt liðinu á floti. Hann var eðlilega pirraður eftir leikinn en nú þarf liðið að fara á Ásvelli til þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

„Ég ætla ekki að reyna að vera gáfaður eða einhver spekúlant en mér fannst að við hefðum átt að klára þetta. Það koma alltaf sveiflur og þeir sem vilja þetta vinna og þeir vildu þetta greinilega.“

„Við þurfum að fokking hreinsa kollinn. Menn hljóta að vera pirraðir núna, þannig menn þurfa að rífa sig í gang ef þeir ætla að spila aftur í þessu.“

„Það er ekkert gaman að þurfa að fara á Ásvelli og vinna þar en við höfum gert það þrisvar áður og getum gert það aftur.“

Stemningin í Mosfellsbæ var mögnuð en það heyrðist vel í áhorfendum og var Davíð afar þakklátur þeim en hann bað þá um leið afsökunar á tapinu.

„Ég bið stuðningsmenn innilegrar afsökunar á þessu í dag,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert