Hungrið minnkar ekkert

Leikmenn Gróttu fagna Íslandsmeistaratitlinum.
Leikmenn Gróttu fagna Íslandsmeistaratitlinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var einn af burðarásum Gróttuliðsins sem varð Íslandsmeistari í handknattleik annað árið í röð og í annað skipti í sögu félagsins með 28:23 sigri sínum gegn Stjörnunni í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvíginu um meistaratitilinn á sunnudaginn.

Anna Úrsúla gekk til liðs við uppeldisfélag sitt fyrir keppnistímabilið 2015 og hefur síðan orðið Íslandsmeistari tvívegis með liðinu, auk þess að verða deildarbikarmeistari síðastliðið vor.

Anna bindur saman varnarleik Gróttu og sér til þess að halda leikmönnum liðsins á tánum í varnarleiknum auk þess að standa í ströngu í baráttunni sjálf. Þá er hún bæði gríðarlega sterkur línumaður og afbragðs skotmaður og þar af leiðandi sterkt vopn í sóknarleik Gróttu.

Grótta náði þeim frábæra árangri að tapa eingöngu einum leik í úrslitakeppninni í ár, en liðið tapaði fyrir Stjörnunni í þriðja leik liðanna á föstudaginn var.

Anna hefur nú orðið Íslandsmeistari alls sex sinnum á sjö árum, en hungrið til þess að bæta einum enn í safnið var greinilega til staðar á sunnudaginn var.

„Ég er gríðarlegur keppnismaður að eðlisfari og hungrið minnkar ekkert þó svo að ég hafi gert þetta áður. Þetta var eittvað sem við ætluðum okkur strax frá því að úrslitakeppnin byrjaði og við sáum þetta fyrir okkur sem þrjár skorpur. Við náðum stórkostlegum árangri að tapa einungis einum leik í úrslitakeppninni,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í samtali við Morgunblaðið um úrslitaeinvígi liðanna eftir leikinn á sunnudaginn.

„Við vorum of stressaðar í leiknum á föstudaginn þegar við gátum klárað þetta á heimavelli. Það var gott að fá annan leik strax einum og hálfum sólarhring. Við vorum staðráðnar í að hefna fyrir tapið í síðasta leik og byrja baráttuna frá fyrstu mínútu. Það tókst og við erum gríðarlega glaðar,“ sagði Anna Úrsúla um spilamennsku Gróttu í leiknum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert