FH fær öflugan liðsstyrk

Jóhann Karl Reynisson handsalar hér samninginn.
Jóhann Karl Reynisson handsalar hér samninginn. Heimasíða FH

Karlalið FH í handknattleik hefur styrkt sig fyrir næsta tímabil en félagið fékk í dag Jóhann Karl Reynisson frá danska liðinu Nordsjælland. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í dag.

Jóhann Karl, sem er línumaður, er fæddur árið 1988. Hann gekk til liðs við Nordsjælland frá Ajax Köbenhavn á síðasta ári, en hann lék áður með Fram hér á landi og varð til að mynda Íslandsmeistari með liðinu árið 2013.

„Við erum gríðarlega ánægð að Jóhann Karl hafi valið FH, það voru mörg félög hérlendis og erlendis að reyna að klófesta hann en hann valdi að semja við FH,“ sagði Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH eftir undirskriftina í dag.

„Jóhann Karl smellpassar inn í okkar lið. Við FH-ingar ætlum okkur stóra hluti á næsta tímabili og þetta er fyrsta vísbending um það sem koma skal. Við munum ná í fleiri leikmenn,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert