Þurfum að setja í fluggírinn

Rúnar Kárason á ferðinni gegn Portúgölum í vináttulandsleik í janúar.
Rúnar Kárason á ferðinni gegn Portúgölum í vináttulandsleik í janúar. mbl.is/Árni Sæberg

„Við tökum því sem kom í netin í dag. Það voru þrír fiskar en það er alveg öruggt að við erum ekki saddir,“ sagði Rúnar Kárason, stórskytta íslenska landsliðsins í handknattleik eftir þriggja marka sigur, 26:23, í fyrri viðureigninni við Portúgal í undankeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik að viðstöddum á þriðja þúsund áhorfendum í Laugardalshöllinni í dag.

„Nú þekkjum við leikmenn portúgalska liðsins betur. Ég er sannfærður um að við getum leikið betur í síðari leiknum í Portúgal á fimmtudaginn,“ sagði Rúnar. „Við gáfum þeim að minnsta kosti fimm mörk vegna slakra ákvarðana í sóknarleiknum auk þess sem fjögur vítaköst fóru forgörðum hjá okkur. Ef við fækkum þessum mistökum þá komum við í veg fyrir að fá hraðaupphlaup í bakið og þá eigum við geta náð hagstæðum úrslitum í síðari leiknum,“ sagði Rúnar enn fremur.

Rúnar segir varnarleik íslenska landsliðsins og markvörsluna hafa verið mjög góða. „Það er ekki mikið að fá 23 mörk á sig. Við verðum að standa vörnina jafn-vel á fimmtudaginn í Portúgal.

Vinnan sem innt hefur verið af hendi í varnarleiknum á síðustu dögum og eins þegar við hittumst í apríl skilaði sér að þessu sinni.

Við þurfum að setja í fluggírinn og halda áfram þar sem frá var horfið í dag þegar við mætum til Portúgals.

Ég hef í heildina góða tilfinningu fyrir unnum leik og veit að við getum gert betur í næstu viðureign. Auðvitað vildi ég hafa unnið stærri sigur en eftir að hafa verið í öldudal í mörgum síðustu leikjum þá getum við ekki krafist eins né neins eða talið sjálfsagt að vinna,“ sagði Rúnar Kárason, landsliðsmaður í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert