Takmarkinu var náð

Íslensku landsliðsmennirnir tryggðu sér keppnisrétt á HM 2017.
Íslensku landsliðsmennirnir tryggðu sér keppnisrétt á HM 2017. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Takmarkinu var náð,“ sagði Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, eftir að íslenska landsliðinu tókst að tryggja sér keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem fram fer í Frakklandi í byrjun næsta árs.

Það tókst þrátt fyrir eins marks tap, 21:20, fyrir landslið Portúgals í síðari viðureign liðanna í Porto í gærkvöldi. Þriggja marka sigur í fyrri leiknum í Laugardalshöllinni á sunnudaginn lagði grunn að sigri samanlagt í leikjunum tveimur, 46:44.

„Það var svo sem ljóst fyrirfram að það gæti orðið tæpt á þessu hjá okkur eftir þriggja marka sigur á heimavelli en okkur tókst að ljúka þessi verkefni á þann hátt að það sem stefnt var að náðist,“ sagði Geir sem tók við þjálfun landsliðsins í lok mars. „Vinna okkar saman undanfarna daga hefur öll miðast að því að komast inn á HM og það tókst,“ sagði Geir.

„Varnarleikurinn okkar var góður og markvarslan einnig. Þessir þættir lögðu grunn að árangrinum,“ sagði Geir og viðurkenndi að sóknarleikur íslenska liðsins hefði ekki verið góður, einkum í fyrri hálfleik þegar liðið skoraði aðeins sjö mörk. „Okkur skorti ró í sóknarleikinn í fyrri hálfleik. Betur gekk í þeim síðari. Þá skoruðum við 13 mörk og náðum að leika okkur oft og tíðum í mjög góð færi sem oft tókst ekki að nýta. Auk þess þá fór þrjú vítaköst forgörðum.

Á undanförnum vikum höfum við náð að leggja grunn að góðum varnarleik. Það var hægt á þeim skamma tíma sem fyrir hendi var. Næst tókum við sóknarleikinn fyrir. En aðaltriði er að við verðum með á HM í Frakklandi. Þangað til að mótinu kemur höfum við tíma til þess að bæta leik okkar,“ sagði Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.

Fjallað er um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert