Haukakonur í Áskorendabikarinn

Ramune Pekarskyte og samherjar í Haukum fara í Áskorendabikarinn.
Ramune Pekarskyte og samherjar í Haukum fara í Áskorendabikarinn. mbl.is/Styrmir Kári

Kvennalið Hauka hefur tilkynnt þátttöku í Áskorendabikar Evrópu í vetur en á morgun verður dregið til fyrstu tveggja umferðanna. Eins og áður hefur komið fram munu hvorki Íslandsmeistarar Gróttu né bikarmeistarar Stjörnunnar senda lið á Evrópumót kvenna í vetur.

Haukar eru í efri styrkleikaflokki fyrir dráttinn en eins og oft áður eru talsverðar líkur á því að mótherjarnir komi frá Austur-Evrópu.

Haukar sitja hjá í fyrstu umferð keppninnar (sem heitir 2. umferð), en þar eru eftirtalin lið: Zagnosspor (Tyrklandi), Madeira  (Portúgal), Thun (Sviss), Kumanova (Makedóníu), Ilidza (Bosníu), Ariosta Ferrara (Ítalíu), Dornbirn (Austurríki) og Alcobendas (Spáni).

Haukar geta mætt einhverju þessara liða, sem og öðrum liðum sem verða í neðri styrkleikaflokki fyrir 3. umferðina, en það eru eftirtalin lið:

Danilovgrad (Svartfjallalandi), Maccabi Ramat-gan (Ísrael), Olympia  (Bretlandi), HIFK (Finnlandi), Mira Prijedor (Bosníu), Jomi Salerno (Ítalíu), Bau Stockerau (Austurríki), Femina Vise (Belgíu), Svilengrad (Búlgaríu), Mamuli (Georgíu), Zuazo (Spáni) og Dnepryanka Kershon (Úkraínu).

Eins og áður hefur komið fram fara karlalið Hauka og Vals einnig í Evrópukeppni í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert