Daði Laxdal heldur til Noregs

Daði Laxdal Gautason mun leika í Noregi á næstu leiktíð.
Daði Laxdal Gautason mun leika í Noregi á næstu leiktíð. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Daði Laxdal Gautason sem lék með Gróttu í Olís-deild karla í handknattleik á síðustu leiktíð hefur skrifað undir samning við norska liðið Stord HK sem leikur í norsku B-deildinni á næsta tímabili eftir að hafa fallið úr efstu deild í vor. 

Daði Laxdal er 22 árs gömul skytta, en hann er er upp­al­inn Gróttumaður og hann lék með öll­um yngri flokk­um fé­lags­ins þar til hann skipti yfir í Val árið 2011. Daði Laxdal lék síðan með Gróttu vorið 2014 sem lánsmaður frá Val. Tímabilið 2014 til 2015 lék Daði Laxdal svo með HK í efstu deild og skoraði 51 mark í 23 leikj­um fyrir HK sem féll í 1. deild. 

„Ég hafði verið í viðræðum við nokkur erlend lið, en var eiginlega búinn að ákveða að leika á Íslandi þegar Stord HK kom til sögunnar. Eftir að hafa kannað aðstæður hjá þeim, æft með liðinu og heyrt framtíðaráform forráðamanna félagsins þá kviknaði strax mikill áhugi að ganga til liðs við þá,“ sagði Daði Laxdal í samtali við mbl.is í dag. 

„Þetta er lið sem féll naumlega úr efstu deild í vor og ætlar sér strax aftur upp. Það er gríðarlega flott umgjörð þarna og mikil stemming á vellinum þegar liðið spilar. Þetta er svona félag sem svipar mikið til ÍBV hvað varðar stemmingu og hvernig haldið er á málunum,“ sagði Daði Laxdal um norska liðið.

„Þetta er mjög skemmtileg áskorun og mikið ævintýri. Þeir ætla mér stórt hlutverk á næstu árum og sjá mig fyrir sér sem mikilvægan hlekk í því verkefni að koma liðinu aftur í efstu deild. Það væri mjög gaman að leika með liði í efstu deild í Noregi og ég hlakka mikið til þess að fara út og æfa og spila með liðinu,“ sagði Daði Laxdal um framhaldið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert