Ætla mér persónulega stóra hluti

Bjarki Már Elísson, til hægri.
Bjarki Már Elísson, til hægri.

Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson og félagar hans í þýska liðinu Füchse Berlin hefja keppni í 1. deild þýska handboltans um næstu helgi, eins og önnur lið í deildinni. Markmið Berlínarliðsins er að ná einu af þremur efstu sætunum sem gefa sæti í Meistaradeild Evrópu.

„Stemningin er fín. Við erum búnir að æfa síðan 11. júlí, reyndar án átta leikmanna sem voru á Ólympíuleikunum. Við teljum okkur klára í slaginn,“ sagði Bjarki Már í samtali við Morgunblaðið í gær en Berlin sækir Wetzlar heim í fyrsta leik nýs tímabils á föstudagskvöldið.

Füchse Berlin hafnaði í fimmta sæti á síðasta tímabili og tekur þar af leiðandi þátt í EHF-bikarnum á keppnistímabilinu sem hefst eftir nokkra daga. „Við teljum okkur vera með lið sem getur keppt um efstu þrjú sætin sem gefur sæti í Meistaradeildinni. Það verður markmiðið í vetur, allavega til að byrja með. Síðan sjáum við til hvernig þetta þróast,“ sagði Bjarki, sem gekk til liðs við Berlín fyrir síðasta tímabil en áður hafði hann leikið í tvö tímabil með Eisenach, það síðara í 2. deildinni en þar varð hann markakóngur. Áður hafði hann leikið með HK hér á landi.

Álagið þykir með mesta móti í þýsku deildinni en Bjarki segir að það sé aldrei hægt að slaka á, sama hver andstæðingurinn er. „Það eru nánast öll liðin í þýsku deildinni góð. Heimaleikir gegn liðum í botnbaráttunni vinnast ef til vill auðveldlega en útileikirnir eru alltaf erfiðir. Sem handboltamaður viltu vera í þessari deild, það er bara svoleiðis.“

Nánar er rætt við Bjarka í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert