Ætlum ekki bara að vera með

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, er spenntur fyrir komandi leiktíð í …
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, er spenntur fyrir komandi leiktíð í Olísdeild karla í handknattleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er óhætt að segja að það sé mikil spenna í Garðabænum fyrir komandi leiktíð. Kvennaliðinu er spáð efsta sæti og karlaliðinu þokkalegu gengi. Það eru miklar væntingar gerðar til okkar og eftirvænting hjá okkur að byrja mótið,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is, en Stjarnan verður nýliði í Olísdeild karla í handknattleik í vetur.  

Stjarnan hefur styrkt sig töluvert fyrir átökin í efstu deild, en liðið hefur til að mynda fengið til liðs við sig markvörðinn Sveinbjörn Pétursson, skyttuna Ólaf Gústafsson, hornamanninn Stefán Darra Þórsson og línumanninn Garðar Benedikt Sigurjónsson auk fleiri leikmanna. 

„Við ætlum klárlega ekki bara að vera með í Olísdeildinni í vetur. Markmiðið er að festa Stjörnuna í sessi í efstu deild og reyna að gera eins vel og við getum. Við höfum styrkt leikmannhópinn umtalsvert og þar af leiðandi er stefnan sett á að gera góða hluti. Við rennum hins vegar örlítið blint í sjóinn og munum sjá þegar líða tekur á mótið hvar við stöndum,“ sagði Einar, spurður hver stefnan sé hjá Stjörnunni í vetur. 

„Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel og það var gott að við gengum frá leikmannamálum nokkuð snemma. Þeir leikmenn sem komu til okkar eru komnir inn í hlutina hjá okkur. Við fórum í æfinga- og keppnisferð til Spánar og erum tiltölulega nýkomnir þaðan. Það eru einhver meiðsli hér og þar eins og gengur og gerist, en ekkert alvarlegt í þeim efnum,“ sagði Einar um stöðuna á leikmannahópi Stjörnunnar eins og sakir standa. 

„Deildin er afar sterk og ég á von á því að þetta verði skemmtilegasta deild í langan tíma. Það er í kortunum að ÍBV og Haukar stingi af, en það eru mörg góð lið í deildinni og það er erfitt að spá fyrir um hvernig liðin munu raðast í sæti. Það er ómögulegt að spá fyrir um hvernig deildin mun fara, en eitt er víst að hún verður spennandi,“ sagði Einar, spurður hvernig hann sæi fyrir sér að deildin muni þróast í vetur. 

Stjarnan tekur á móti Akureyri í fyrstu umferð deildarinnar á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert