Tók lítið eftir því að þær voru að saxa á

Helena Rut Örvarsdóttir.
Helena Rut Örvarsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það var mjög gott að fá einn góðan sigur,” sagði Helena Rut Örvarsdóttir en hún skoraði sjö mörk í 29:26 sigri Stjörnunnar á Gróttu í Olís-deild kvenna í handknattleik í dag.

Hún segir góðan fyrri hálfleik lykilinn af sigrinum.

„Fyrri hálfleikurinn var sérstaklega góður. Við náðum að spila vel úr sókninni og gera þær óöruggar í vörn. Við spiluðum vel á móti þessari 3-2-1 vörn sem þær nota.”

Grótta náði að minnka muninn í tvö mörk undir lokin en munurinn varð mestur sjö mörk. Helena segist varla hafa tekið eftir því.

„Við létum þetta fara í smá spennu í lokin, við þurftum alls ekki að gera það. Við vorum að klikka á færum á meðan þær fá auðveld mörk. Það fór samt ekki um okkur, ég tók lítið eftir því að þær voru að saxa á.”

Helena var sátt við sinn leik, en segist þó geta gert betur. „Þetta var fínn leikur hjá mér en ég get alltaf gert betur, bæði í vörn og sókn,” sagði Helena að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert