Fjórði sigur Vals í röð kom í Eyjum

Vignir Stefánsson skoraði átta mörk gegn ÍBV í dag.
Vignir Stefánsson skoraði átta mörk gegn ÍBV í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Valur vann sinn fjórða leik í röð í Olís-deild karla í handknattleik í dag þegar liðið mætti ÍBV í Eyjum í leik sem var frestað frá því á fimmtudagskvöld. Áhlaup Eyjamanna kom of seint og Valsmenn fögnuðu sigri eftir spennandi lokamínútur, 30:27.

Valsmenn réðu ferðinni í fyrri hálfleik og náðu þar mest sjö marka forskoti, 11:4, þegar ÍBV skoraði aðeins eitt mark á um tólf mínútna kafla. Þegar flautað var til hálfleiks voru Valsmenn með þægilegt sex marka forskot, 14:8.

Eyjamenn sóttu hins vegar í sig veðrið þegar leið á seinni hálfleikinn og minnkuðu muninn niður í eitt mark þegar sjö mínútur voru eftir, í fyrsta sinn frá því í stöðunni 2:1. Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem munaði jafnan einu marki á liðunum. Valsmenn héldu hins vegar út og fögnuðu að lokum þriggja marka sigri, 30:27.

Valur er þar með kominn upp í þriðja sæti deildarinnar með átta stig líkt og Stjarnan, en ÍBV er með stigi meira í öðru sætinu og mistókst að minnka forskot Aftureldingar á toppnum niður í eitt stig.

Anton Rúnarsson og Vignir Stefánsson voru markahæstir hjá Val með átta mörk eins og Sigurbergur Sveinsson sem var markahæstur hjá ÍBV.

ÍBV 27:30 Valur opna loka
60. mín. Ymir Örn fer meiddur af velli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert