Haukar úr leik eftir tap í Svíþjóð

Janus Daði Smárason var markahæsti leikmaður Hauka með sjö mörk.
Janus Daði Smárason var markahæsti leikmaður Hauka með sjö mörk. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Haukar féllu úr leik í EHF-bikar karla í handbolta eftir fjögurra marka tap gegn sænska liðinu Alingsås ytra í dag. Lokatölur í leiknum urðu 31:27 Alingsås í vil, en fyrri leik liðanna lyktaði með 24:24 jafntefli.

Haukar fóru illa að ráði sínu í fyrri leik liðanna í Schenker-höllinni, en þeir köstuðu frá sér sigrinum á heimavelli eftir að hafa náð mest átta marka forskoti í þeim leik. Alingsås hafði hins vegar frumkvæðið í leiknum í dag og var með nokkuð öruggt forskot allan leikinn. 

Janus Daði Smárason var markahæsti leikmaður Hauka í leiknum í dag með sjö mörk og Guðmundur Árni Ólafsson kom næstur með sex mörk.

Einar Pétur Pétursson sem er á mála hjá Haukum, en býr þessa stundina í Danmörku, var í leikmannahópi Hauka í leiknum, en komst hins vegar ekki á blað.

Mörk Hauka: Janus Daði Smárason 7, Guðmundur Árni Ólafsson 6, Adam Haukur Baumruk 3, Heimir Óli Heimisson 3, Daníel Ingason 3, Andri Heimir Friðriksson 2, Elías Már Halldórsson 2, Þórður Rafn Guðmundsson 1.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert