Við því að búast að þetta yrði erfitt

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV. mbl.is/Ófeigur

ÍBV tapaði með eins marks mun gegn Aftureldingu í kvöld þegar liðin áttust við í 8. umferð Olís-deildar karla. Úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndunum þegar Davíð Svansson varði stórkostlega í marki gestanna. 

„Við fengum allavega tækifæri til þess að jafna þetta undir lokin og nýttum það ekki þannig að þetta var svekkjandi,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, eftir leik. 

ÍBV virtist vera með fá svör við vörn gestanna í upphafi leiks þegar liðið lendir fjórum og fimm mörkum undir.

„Við vorum lengi að kveikja, eins og við höfum reyndar verið í flestum okkar leikjum. Við erum lengi að koma okkur af stað og það er helsta áhyggjuefnið í dag. Við vorum líka kannski að keyra of lengi á mönnum sem eru slappir. Við ætluðumst til of mikils af þeim.“

Sigurbergur og Theodór veikir

Hverjir eru það sem eru slappir hjá liðinu?

„Við erum með menn í veikindum, bæði Begga [Sigurberg Sveinsson] og Tedda [Theodór Sigurbjörnsson] þannig að það var kannski við því að búast að þetta yrði ströggl,“ sagði Arnar en Magnús Stefánsson hafði einnig verið að glíma við veikindi.

ÍBV náði þó að laga stöðuna og komast yfir rétt fyrir hálfleik og þá héldu margir að liðið myndi ganga á lagið.

„Ég var mjög ánægður með þann karakter sem við sýndum á löngum köflum í þessum leik. Ég er á margan hátt stoltur af strákunum, við erum að berjast við ákveðin vandamál í leikmannahópnum. Við erum með mikið af mönnum frá og annað, við erum að taka inn mikið af ungum strákum sem stóðu sig vel í kvöld,“ sagði Arnar en liðið skartaði á kafla í leiknum fjórum leikmönnum fæddum 1998 inni á vellinum á sama tíma.

ÍBV er lengi að elta gestina í seinni hálfleik, í raun í heilar 25 mínútur. Hefur það tekið mikla orku úr liðinu?

„Já klárlega, það gerir það. Það er erfitt að elta allan leikinn og ég tala nú ekki um þegar menn eru slappir fyrir, þá er orkan ekki gríðarleg.“

Fimm stig eru mikill munur

Nú missir ÍBV Aftureldingu fimm stigum á undan sér við topp deildarinnar, er orðið of mikið bil á milli þessara liða?

„Það er klárt, fimm stig eru mikill munur. Það eru þrír leikir, en við erum svo sem ekki að fókusera á það að elta Aftureldingu. Við þurfum mest að hugsa um hópinn og að bæta okkur leik frá leik.“

Róbert Aron Hostert spriklaði aðeins úti á gólfi fyrir leik er langt í hann?

„Það er eitthvað í hann ennþá en hann er allur að koma til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert