Þórir byrjar vel með Noreg á EM

Camilla Herrem og Stine Oftedal fagna marki gegn Rúmeníu í …
Camilla Herrem og Stine Oftedal fagna marki gegn Rúmeníu í kvöld. AFP

Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari ríkjandi Evrópumeistara Noregs, byrjar vel með lið sitt á EM kvenna í handknattleik en liðið lagði Rúmeníu, 23:21, í fyrsta leik sínum á mótinu í kvöld.

Noregur var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11, en liðið var með fimm marka forystu þegar tíu mínútur voru eftir. Rúmenar gerðu þá áhlaup sem kom hins vegar of seint, lokatölur 23:21.

Nora Mørk í liði Noregs var valin maður leiksins, en hún skoraði sjö marka Noregs. Camilla Herrem átti einnig frábæran leik og skoraði úr öllum fimm skotum sínum.

Noregur er í ógnarsterkum D-riðli mótsins sem leikinn er í Helsingborg. Í hinum leiknum fyrr í kvöld unnu ólympíumeistarar Rússa öruggan sigur á Króatíu, 32:26. Hin 21 árs gamla Anna Vyakhireva braut 200 marka múrinn fyrir Rússa í leiknum, sem voru þremur mörkum yfir í hálfleik 16:13.

Fyrir fram er búist við hörkubaráttu um að komast upp úr þessum riðli og er spennan strax farin að magnast fyrir viðureign Noregs og Rússa í lokaleik riðilsins. Þar geta Þórir og stöllur hans komið fram hefndum fyrir tapið í undanúrslitum Ólympíuleikanna í sumar.

Nora Mørk var markahæst hjá Noregi og er hér tekin …
Nora Mørk var markahæst hjá Noregi og er hér tekin föstum tökum af vörn Rúmeníu. AFP

Danir unnu spennusigur

Í C-riðli keppninnar sem leikinn er í Malmö unnu Danir sigur á Svartfjallalandi í miklum spennuleik, 22:21. Danir voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11, en sigurmark þeirra kom þegar rúm hálf mínúta var eftir af leiknum.

Stine Jörgensen, sem fór fyrir Dönum í leiknum, steig þá á vítalínuna og skoraði sitt níunda mark og tryggði stigin tvö. Sterklega er búist við því að þessi tvö lið komist upp úr riðlinum og líklegt er að þessi úrslit skipti miklu í baráttunni um toppsætið.

Í hinum leik riðilsins skráðu Tékkar sig í sögubækurnar með sínum fyrsta sigri á Ungverjum, 27:22. Þjóðirnar höfðu mæst níu sinnum áður á handboltavellinum og aldrei höfðu Tékkar fyrr unnið sigur.

Ungverjar eru með laskað lið á EM vegna meiðsla og voru Tékkar þremur mörkum yfir í hálfleik, 13:10. Ungverjar skoruðu hins vegar fyrstu fjögur mörk síðari hálfleiks áður en Tékkar áttuðu sig á ný og uppskáru fimm marka sigur, 27:22.

 Önnur umferð í A- og B-riðli fer fram á morgun þar sem leikið er í Stokkhólmi og Kristianstad.

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í kvöld.
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert