Stórsigur FH í Garðabænum

Einar Rafn Eiðsson sækir að Ara Magnúsi Þorgeirssyni.
Einar Rafn Eiðsson sækir að Ara Magnúsi Þorgeirssyni. mbl.is/Árni Sæberg

FH vann í kvöld sinn þriðja sigur í röð í Olís-deild karla í handknattleik. FH mætti Stjörnunni í Garðabæ og vann tíu marka stórsigur, 35:25. FH-ingar eru þar með komnir með jafn mörg stig og erkifjendurnir í Haukum en þeir rauðklæddu halda öðru sætinu á markamun og eiga að auki leik til góða. Óðinn Þór Ríkharðsson og Jóhann Birgir Ingvarsson skoruðu báðir 10 mörk fyrir FH en Garðar Benedikt Sigurjónsson var markahæstur Stjörnumanna með 6 mörk.

 Bæði liðin komu virkilega inn í deildina eftir jólafríið og höfðu unnið báða leiki sína á nýju ári þegar flautað var til leiks í Mýrinni í kvöld. Það kom þó fljótlega í ljós að FH er einfaldlega með sterkara lið en Stjarnan. Hafnfirðingar skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins og bættu hægt og bítandi ofan á það forskot. Staðan í hálfleik var 17:12 fyrir FH og var sú forysta fyllilega verðskulduð..

Hafi menn haldið að leikmenn Stjörnunnar mættu grimmir út í seinni hálfleikinn, þá varð það alls ekki raunin. FH-ingar skoruðu fyrstu fjögur mörk seinni hálfleiks og gerðu í raun út um leikinn. Gestirnir léku við hvern sinn fingur á meðan Stjörnumenn voru eins og algjörir byrjendur. FH komst mest 12 mörkum yfir en vann að lokum, eins og áður segir öruggan tíu marka sigur.

Stjarnan 25:35 FH opna loka
60. mín. Leik lokið Yfirburðir FH.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert