„Maður er aldrei rólegur við svona brot“

Gunnar Magnússon.
Gunnar Magnússon. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka var léttur, ljúfur og kátur eftir öruggan tíu marka sigur liðsins gegn Selfossi í kvöld. Lokatölur urðu 35:25 og Haukar eru þar með komnir í efsta sæti Olís-deildar karla í handknattleik.

„Síðustu tvo leiki vorum við mjög seinir í gang og vorum t.d. komnir sex mörkum undir gegn Selfossi í bikarleiknum fyrir viku. Við fórum bara vel yfir málin, ætluðum að mæta þeim vel í byrjun leiks og það gerðum við. Svo náum við frumkvæðinu og héldum því bara út leikinn. Liðsheildin var frábær í dag og allir sem komu við sögu stóðu sig vel,“ sagði Gunnar eftir leik.

Selfyssingar börðust vel og kannski örlítið of vel á köflum. Gunnar var ekki sáttur við brot Selfyssinga á Hákoni Daða Styrmissyni í fyrri hálfleik, þegar Hákon var keyrður niður í hraðupphlaupi.

„Maður er aldrei rólegur þegar leikmaður er í hraðupphlaupi og það er brotið svona á honum. Þetta er bara stórhættulegt. Hákon meiddist illa í nákvæmlega svona broti á móti FH og var frá í einhverja fimm mánuði. Hann slapp sem betur fer óskaddaður frá þessu en þarna verða dómarar að vernda leikmenn betur. Ég held að leikmaður Selfoss hafi nú ekkert verið að gera þetta viljandi og þetta skrifast líklega á klaufaskap frekar en fantaskap.“

Haukar misstu besta leikmann deildarinnar um áramót en þá fór Janus Daði Smárason í atvinnumennsku í Danmörku. Gunnar segir það taka tíma að læra að lifa án Janusar.

„Mér finnst við vera búnir að bæta okkur frá áramótum. Það urðu ákveðnar breytingar á okkar liði eftir jólafríið og við þurftum að endurstilla okkur aðeins. Ég er bara sáttur við bætinguna frá áramótum og þessi leikur í dag var sá besti á árinu. Nú er bara að fínpússa og við verðum klárir í höllinni á bikarhelginni.“

Króatinn Ivan Ivkovic kom til Hauka um áramótin. Hvernig metur Gunnar frammistöðu þessarar 207 cm. skyttu í þeim fjórum leikjum sem hann hefur leikið með Haukum?

„Hann hefur í raun komið sterkari inn hjá okkur en ég átti von á. Hann á ennþá langt í land í formi en hann er náttúrulega stór og sterkur og við erum sannfærðir um það að þessi strákur getur orðið hörku leikmaður ef hann heldur áfram með okkur í þessu umhverfi hér að Ásvöllum,“ sagði Gunnar að lokum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert