ÍBV betra í tólf mínútur

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

„Það er ekki oft sem maður nær að vinna leik þar sem maður er bara betri í tólf mínútur en það hafðist í dag,“ sagði Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is eftir magnaðan sigur liðsins á Selfossi í Olís-deild kvenna í handbolta í dag, 32:31.

Selfossliðið var mun betra í fyrri hálfleik og náði mest sex marka forskoti en ÍBV átti frábæran lokakafla og sneri leiknum sér í vil á síðustu tíu mínútunum.

„Varnarleikurinn hjá okkur var ekki góður fyrr en það voru tólf mínútur eftir af leiknum. Þá einhvern veginn smellur allt og allar verða mjög duglegar í vörn. Við fáum á okkur eitt mark á tólf mínútna kafla og náum að snúa leiknum við eftir að hafa verið fimm mörkum undir,“ sagði Hrafnhildur.

„Ég get ekki sagt að ég hafi beðið róleg eftir að vörnin myndi smella. Ég var orðin mjög hrædd um að þetta væri tapaður leikur því það leit ekkert endilega út fyrir það að við værum að koma til baka. Þetta sýnir bara frábæran karakter hjá stelpunum að ná að koma til baka og það er mikilvægt upp á framhaldið fyrir okkur,“ sagði Hrafnhildur enn fremur og hún vildi líka hrósa Selfossliðinu.

„Mér fannst Selfossliðið vera að spila frábærlega í dag, hrikalega flottar og á mikilli uppleið enda eru þær komnar í undanúrslit í bikar. Þær eru með gríðarlega flott lið og þess vegna var þetta mjög mikilvægur sigur hjá okkur í dag,“ sagði Hrafnhildur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert