Aron skaut Veszprém í undanúrslit

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/twitter-síða Veszprém

Aron Pálmarsson var aftur markahæstur hjá Veszprém þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í dag eftir sigur á Montpellier frá Frakklandi, 30:25, í síðari viðureign liðanna á útivelli.

Aron skoraði sjö marka Veszprém í leiknum, en Montpellier var fjórum mörkum yfir í hálfleik 15:11. Dæmið snerist hins vegar algjörlega við eftir hlé. Veszprém vann fyrri leikinn á heimavelli 26:23 og vann því einvígið samanlagt með átta mörkum.

Aron var einmitt líka markahæstur í fyrri leiknum, en þá skoraði hann sex mörk, og skilaði því samtals 13 mörkum í leikjunum tveimur. Hann er kominn í undanúrslit, svokallað „Final Four“, í sjöunda sinn á ferlinum.

Hin liðin sem eru í undanúrslitum eru Vardar frá Makedóníu, Barcelona frá Spáni og PSG frá Frakklandi. Aron verður því eini Íslendingurinn sem tekur þátt í úrslitahelginni í Köln í maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert