Til háborinnar skammar

Alexander Örn Júlíusson, Ýmir Örn Gíslason og Orri Freyr Gíslason, …
Alexander Örn Júlíusson, Ýmir Örn Gíslason og Orri Freyr Gíslason, Valsmenn í leiknum í Turda í dag. Ljósmynd/Mircea Rosca/ActionFoto.ro

„Ég veit ekki hvað ég að segja eða þori að segja,” sagði Orri Freyr Gíslason, fyrirliði Vals sem vissi vart hvort hann átti að hlæja eða gráta eftir níu marka tap fyrir Poatissa Turda í Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik í Turda í dag þar sem dómgæslan var Valsliðinu afar mótdræg.

„Frammistaða dómaranna var til háborinnar skammar,” sagði Orri Freyr og benti m.a. á að Valsliðið hefði átti að fá amk sjö vítaköst í leiknum en fékk eitt með herkjum.  Leikmenn Turda voru einu sinni reknir af leikvelli í  leiknum þrátt fyrir að leika mjög framarlega í vörninni með tilheyrandi átökum.  

„Í dag var okkur hent út úr keppni,” sagði Orri Freyr ennfremur. Hann bendir á að margt í framkvæmd leiksins hafi verið hæsta máta ámælisverð og m.a. hafi stuðningsmaður Turda verið tengdur við hljóðnema alla leikinn og þrátt fyrir athugasemdir þá hafi dómarar og eftirlitsmaður horft í gegnum fingur sér. „Ég er viss um að þetta er bannað.

Ég er stoltur af okkur. Við brotnuðum aldrei þrátt fyrir að bogna. Við gáfumst aldrei upp. Við hefðum getað tapað með 15-20 marka mun. Vissulega vorum við ekki góðir í fyrri hálfleik en dómarnir bættu gráu ofan á svart með frammistöðu sinni. Það var leiðinlegt að ekki var ljóst að þessu sinni hvort liðið væri betra í handbolta,” sagði Orri Freyr Gíslason, fyrirliði Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert