„Frábært, I love it“

Arnór Þór Gunnarsson, Bjarki Már Elísson og Guðjón Valur Sigurðsson …
Arnór Þór Gunnarsson, Bjarki Már Elísson og Guðjón Valur Sigurðsson verða í eldlínunni þegar íslenska landsliðið í handknattleik mætir landsliði Úkraínu í hreinum úrslitaleik um sæti á EM í Króatíu í Laugardalshöll í kvöld. mbl.is/Golli

„Frábært, I love it. Til þess er maður meðal annars í þessu. Þetta er lang skemmtilegustu leikirnir,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins handknattleik, en hann verður eins og endranær í eldlínunni þegar íslenska landsliðið mætir Úkraínu í hreinum úrslitaleik um keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu í Laugardalshöllinni í kvöld.

„Nú er bara að stilla leiknum vel upp og mæta klár í slaginn,“ sagði Guðjón Valur sem leikreyndasti leikmaður íslenska landsliðsins um þessar mundir. Viðureignin í kvöld verður hans 338. landsleikur frá árinu 1999. Reynslan er því mikil.

„Skemmtilegustu leikirnir á ferlinum eru síðustu leikirnir fyrir sumarfrí hér í Laugardalshöllinni og á ég góðar minningar frá þeim flestum. Ég hlakka til leiksins og vonast til þess að eiga gott kvöld hér með samherjum mínum og áhorfendum.

Ég vona að það verði fullt hús af fólki. Við verðum að minnsta kosti þakklátir öllum þeim sem koma og styðja við bakið á okkur.  Vonandi verða mikil læti og pressa þannig að við getum skemmt áhorfendum,“ sagði Guðjón sem veltir lítið fyrir sér andstæðingnum.

„Það sem skiptir mig mestu máli er þessi hópur sem ég er í og verkefnið sem er fyrir höndum. Við erum það skiptir mig öllu um þessar mundir,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik.

Viðureign Íslands og Úkraínu hefst í Laugardalshöllinni kl. 18.45 í dag. Miðasala stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert