Tveir Jóar og einn 72 ára til Hvíta riddarans

Sveinbjörn Sævar mun verja mark Hvíta riddarans í vetur ásamt …
Sveinbjörn Sævar mun verja mark Hvíta riddarans í vetur ásamt Davíð Svanssyni. Ljósmynd/Hvíti riddarinn

Handknattleikslið Hvíta riddarans hefur heldur betur sótt liðsstyrk fyrir komandi tímabil, en liðið fer upp í fyrstu deildina úr utandeildinni. Jóhann Gunnar Einarsson lék með Aftureldingu síðustu timabil í Olís-deildinni en hefur nú skrifað undir eins árs samning við Hvíta riddarann. Jóhann Gunnar lék um tíma í Þýskalandi og Sádi-Arabíu, en var valinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar hérlendis árið 2013.

Hann er ekki eina stórskyttan sem liðið gerði samning við, en nafni hans, Jóhann Jóhannsson, skrifaði einnig undir eins árs samning við mosfellska fyrstudeildarliðið. Jóhann hefur verið lykilmaður Aftureldingar síðustu ár og kemur frá uppeldisfélaginu.

Hornamaðurinn Hilmar Stefánsson og varnartröllið Haukur Sörli Sigurvinsson hafa tekið skóna fram af hillunni, en ljóst er að Hvíti riddarinn er stórhuga fyrir komandi tímabil. „Þá þarf vart að kynna fyrir áhugamönnum um íslenskan handbolta,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Níels Reynisson verður þjálfari liðsins, en honum innan handar verður Jóhannes Jóhannesson. Níels lék með yngri landsliðum Íslands og með Aftureldingu um árabil.

Mosfellingar skrifuðu undir samning við elsta leikmann deildarinnar, en hinn 72 ára gamli Sveinbjörn Sævar Ragnarsson mun verja mark liðsins í vetur. Sveinbjörn er búinn að vera markvörður í 42 ár og hóf ferilinn hjá Þrótti. Undanfarna nærri fjóra áratugi hefur Sævar leikið með Aftureldingu. 

Meðal annara leikmanna sem nýlega hafa skrifað undir samning við Hvíta riddarann má nefna Þránd Gíslason, Einar Héðinsson, Elías Baldursson, Kristin Baldursson, Reyni Inga Árnason, Kristin Pétursson, Fannar Helga Rúnarsson, Davíð Svansson og Magnús Friðrik Einarsson.

Jóhann Gunnar Einarsson.
Jóhann Gunnar Einarsson. Ljósmynd/Hvíti riddarinn
Jóhann Jóhannsson.
Jóhann Jóhannsson. Ljósmynd/Hvíti riddarinn
Haukur Sörli Sigurvinsson.
Haukur Sörli Sigurvinsson. Ljósmynd/Hvíti riddarinn
Hilmar Stefánsson.
Hilmar Stefánsson. Ljósmynd/Hvíti riddarinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert