Þrír nýir leikmenn til Gróttu

Kristjana Björk Steinarsdóttir skrifaði undir samning við Gróttu.
Kristjana Björk Steinarsdóttir skrifaði undir samning við Gróttu. Ljósmynd/Facebook-síða Gróttu

Þrír nýir handknattleiksmenn eru gengnir til liðs við meistaraflokk kvenna hjá Gróttu, en liðið tilkynnti það á Facebook-síðu sinni rétt í þessu. Leikmennirnir eru úr öllum áttum, að norðan, úr Eyjum og úr Árbænum. Ljóst er að Grótta ætlar sér stóra hluti í Olís-deildinni í vetur.

Elva Björg Arnarsdóttir getur leyst flestar stöður og er afar fjölhæfur leikmaður, en hún er 30 ára gömul. Elva Björg er að norðan, en hefur síðustu ár leikið með HK og Fram.

Þóra Guðný Arnarsdóttir er 18 ára línumaður úr Vestmannaeyjum. Hún er gríðarlega efnileg og er fastamaður í landsliði Íslands skipað leikmönnum 19 ára og yngri. Þóra Guðný lék 20 leiki með ÍBV í fyrra þar sem hún skoraði 13 mörk, en hún er einnig öflug í vörninni.

Kristjana Björk Steinarsdóttir er 22 ára vinstri hornamaður, en hún kemur frá Fylkiskonum í Árbænum. Hún var fastamaður í liðinu á síðasta tímabilinu, en þar skoraði hún 19 mörk í 21 leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert