Góður lokasprettur tryggði Fjölni stig

Ægir Hrafn Jónsson sækir að vörn Fjölnis í kvöld.
Ægir Hrafn Jónsson sækir að vörn Fjölnis í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýliðar Víkings og Fjölnis skildu jafnir, 26:26, í Víkinni í kvöld í upphafsleik liðanna í Olís-deild karla í handknattleik. Sterkur lokasprettur Fjölnismanna síðasta stundarfjórðunginn tryggði þeim annað stigið gegn baráttuglöðum Víkingum sem voru yfir lengst af í leiknum og eru þeir vafalítið vonsviknir að hafa ekki hirt bæði stigin. Víkingar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10.

Víkingar hófu leikinn af miklum krafti. Þeir voru þremur mörkum yfir, 5:2, strax eftir tíu mínútur og bættu enn við forskot sitt upp í 7:2 og síðari 11:6. Þeir voru baráttuglaðir í vörninni auk þess sem Davíð Svansson fór mikinn í vörninni og reyndist Fjölnismönnum óþægur ljár í þúfu.

Engu var líkara en sviðsskrekkur hrjáði leikmenn Fjölnis í fyrri hálfleik. Þeir náðu sér engan vegin á strik, hvorki í vörn né sókn, gegn baráttuglöðum Víkingum sem voru mættir með sjálfstraustið í lagi. Ægir Hrafn Jónsson var aðsópsmikill í vörninni auk þess að vera Fjölnismönnum erfiður í sóknarleiknum þar sem hann skoraði hvert markið á fætur öðru af línunni auk þess að vinna vítaköst.

Víkingar voru með sanngjarnt  fjögurra marka forskot þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik, 14:10 og voru í raun óheppnir að hafa verið með fimm marka forystu.

Víkingar gáfu ekki þumlung eftir á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleik. Þótt verr gengi en áður að koma boltanum á Ægi Hrafn á línunni en í fyrri hálfleik þá gekk mönnum bærilega að opna vörn  Fjölnis og finna leiðir framhjá markvörðum liðsins sem náðu sér ekki á strik. Að sama skapi var Davíð áfram í stuði í Víkingsmarkinu hvar hann varði mikilvæg skot, ekki síst eftir hraðaupphlaup.

Fjölnismenn voru ósáttir við dómgæsluna ofan á annað en þeir voru harðir í horn að taka og fóru oftar en Víkingar í kælingu lengi vel. Fjölnismenn voru fimm mörkum undir, 23:18, þegar 13 mínútur voru til leiksloka. Fjölnir tók þá leikhlé og færði sig framar í vörninni. Það sló talsvert vopnin úr höndum Víkinga sem töpuðu boltanum hvað eftir annað.

Lokakaflinn var leikmanna Fjölnis. Þeir komust meira að segja marki yfir, 24:23, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Víkinga náðu að jafna metin. Gríðarlega spenna var í lokin. Víkingar voru í sókn síðustu mínútuna en tókst ekki að færa sér það í nyt. Töf var dæmt á liðið þegar þrjár sekúndu voru til leiksloka.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Víkingur 26:26 Fjölnir opna loka
60. mín. Björgvin Páll Rúnarsson (Fjölnir) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert