Dramatískur sigur Ólafs og félaga

Ólafur Gústafsson.
Ólafur Gústafsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Gústafsson og lið hans Kolding vann dramatískan útisigur gegn Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld. Gamla kempan Bo Spellerberg tryggði liðinu sigur, 24:23.

Kolding var þremur mörkum yfir í hálfleik, 10:7, en það var svo ekki fyrr en á síðustu mínútunni sem sigurmarkið kom. Ólafur átti sjálfur fínan leik, var næstmarkahæstur í liðinu með fjögur mörk.

Kolding er eftir sigurinn með 12 stig eftir 11 leiki og er með jafnmörg stig og Holstebro, Århus og Aalborg í 4.-7. sætinu.

mbl.is