ÍBV vann í Hvíta-Rússlandi

Sigurbergur Sveinsson skoraði sjö mörk fyrir ÍBV.
Sigurbergur Sveinsson skoraði sjö mörk fyrir ÍBV. Haraldur Jónasson / Hari

ÍBV gerði góða ferð út til Hvíta-Rússlands og lagði lið Gomel að velli 31:27 í fyrri leik liðanna í Áskorendabikar Evrópu í handknattleik sem fram fór í Zhlobin þar í landi.

Sem fyrr fór mest fyrir þríeykinu öfluga í liði Eyjamanna, þeim Agnari Smára Jónssyni, Róberti Aroni Hostert og Sigurbergi Sveinssyni en þeir skoruðu allir sjö mörk í leiknum.

Leikmenn ÍBV virðast hafa verið aðeins ryðgaðir eftir ferðalagið en heimamenn komust í 3:0. Þeir voru hins vegar fljótir að rétta úr kútnum og var leikurinn nánast jafn þar til á 25. mínútu. Þá var staðan 13:13 en staðan í hálfleik var 17:13 gestunum í vil.

Eyjamenn höfðu áfram frumkvæðið í leiknum en heimamenn náðu að jafna leikinn í stöðunni 19:19 eftir 37 mínútur.  Eyjamenn lentu hins vegar aldrei undir og siglu að lokum góðum útisigri í hús.

Mörk ÍBV:

Agnar Smári Jónsson 7
Sigurbergur Sveinsson 7
Róbert Aron Hoster 7
Dagur Arnarsson 2
Kári Kristján Kristjánsson 2
Grétar Eyþórsson 2
Friðrik Jónsson 1
Andri Heimir Friðriksson 1
Ágúst Grétarsson 1
Róbert Sigurðarson 1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert