Tók nokkur mikilvæg dauðafæri

Hreiðar Levý Guðmundsson og samherjar í Gróttu hafa haft ástæðu …
Hreiðar Levý Guðmundsson og samherjar í Gróttu hafa haft ástæðu til þess að fagna eftir tvo síðustu leiki sína í deildinni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Við förum kannski rólega með yfirlýsingarnar en við erum komnir á smá sigurgöngu,“ sagði Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Gróttu, eftir 30:19 stórsigur í fallslagnum gegn Víkingi R. í 10. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

Eftir jafnan fyrri hálfleik fóru Gróttumenn á flug í þeim síðari og hreinlega völtuðu yfir andstæðinga sína.

„Við erum búnir að vera nálægt í flestum leikjum og vonandi höldum við svona áfram. Við byrjuðum grimmir, ég ver fullt af boltum og við skorum úr hraðaupphlaupum. Ég tók nokkur mikilvæg dauðafæri og þetta var líka erfitt fyrir þá, þeir voru einum, tveimur fleiri og voru að klikka.“

Grótta byrjaði á að tapa fyrstu átta deildarleikjum sínum en hefur nú unnið tvo í röð og lyft sér af botninum og úr fallsæti. Hreiðar segir að mikilvægt sé að byggja upp sjálfstraustið í liðinu.

„Auðvitað hefur það mikið að segja að vinna, upp á sjálfstraust. Maður þarf að kunna að vinna og hafa það í sér og fá trúna. Við höfum alltaf verið þokkalega léttir samt og fundist við eiga þetta inni, við höfum ekkert verið að stressa okkur yfir þessu. Okkur finnst við geta farið í alla leiki og unnið þá en svo þarf auðvitað að geta það á ögurstundum en það vonandi kemur bara með fleiri sigurleikjum.“

„Það er enn þá stutt í botninn og mikið eftir, við höldum bara áfram. Fyrsta skref er að reyna að fjarlægjast botnliðin, ef við gerum það þá nálgumst við liðin fyrir ofan okkur. En byrjum bara á byrjuninni, við eigum Fjölni næst sem verður risaleikur eins og þessi. Þeir eru með fínt lið, hafa fengið nokkra skelli, nokkur góð úrslit og hafa líka verið óheppnir. Það verður bara 50/50 leikur,“ sagði Hreiðar að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert