Aron Rafn frábær í sigri á Haukum

Aron Rafn Eðvarðsson ver frá Hákoni Daða Styrmissyni í leiknum …
Aron Rafn Eðvarðsson ver frá Hákoni Daða Styrmissyni í leiknum í Eyjum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV vann Hauka með fimm marka mun, 26:21, þegar liðin mættust í Olís-deild karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag. ÍBV lyfti sér því upp fyrir Hauka og á enn leik inni á liðið. 

Haukamenn byrjuðu betur og leiddu á flestum tölum, en Aron Rafn Eðvarðsson var eins og Heimaklettur í marki Eyjamanna og hélt því út allan hálfleikinn. Leikhlé Arnars Péturssonar í stöðunni 7:8 eftir 20 mínútna leik var lykillinn að umskiptum. Eyjamenn komust í 11:9 og svo í 13:10 sem voru hálfleikstölur.

Aron Rafn varði 15 skot í fyrri hálfleik en markverðir Hauka aðeins fjögur. Agnar Smári Jónsson, Róbert Aron Hostert, Adam Haukur Baumruk og Hákon Daði Styrmisson voru allir með þrjú mörk og markahæstir í fyrri hálfleik. 

Í seinni hálfleiknum skildi leiðir, Eyjamenn tóku fljótt fjögurra marka forystu, Haukarnir náðu að minnka hana niður í eitt mark áður en Eyjamenn skoruðu sex mörk í röð. 

Mikill munur var á liðunum í síðari hálfleik og endaði Aron Rafn með 23 varða bolta í markinu. Róbert Aron Hostert og Theodór Sigurbjörnsson voru markahæstir með sex mörk hjá ÍBV en Adam Haukur Baumruk og Hákon Daði Styrmisson skoruðu fjögur hjá gestunum.

ÍBV 26:21 Haukar opna loka
60. mín. Leik lokið Eyjamenn í öðrum klassa í dag, betri á öllum sviðum. Haukar koma þó til baka, þeir koma alltaf til baka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert