Arnór og Janus Daði fóru illa með Ólaf

Arnór Atlason á æfingu með íslenska karlalandsliðinu í handbolta.
Arnór Atlason á æfingu með íslenska karlalandsliðinu í handbolta. mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson/Golli

Arnór Atlason og Janus Daði Smárason sem leika undir stjórn Arons Kristjánssonar hjá Aalborg unnu öruggan 30:20-sigur þegar liðið mætti Ólafi Gústafssyni og samherjum hans hjá Kolding í 16. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta karla í dag. 

Arnór skoraði þrjú mörk fyrir Aalborg í leiknum og Janus Daði skoraði tvö mörk. Ólafur komst ekki á blað fyrir Kolding sem á aldrei til sólar í leiknum. Aalborg náði strax frumkvæðinu í leiknum og leiddi með sjö mörkum í hálfleik. Niðurstaðan varð svo tíu marka sigur. 

Íslendingarnir í liði Århus skoruðu alls sex mörk í 33:29-sigri liðsins gegn SönderjyskE. Sigvaldi Guðjónsson skoraði þrjú þeirra, Ómar Ingi Magnússon tvö og Róbert Gunnarsson bætti einu marki við í sarpinn.

Aalborg er í fimmta sæti deildarinnar með 18 stig eftir þennan sigur, en Kolding er hins vegar í áttunda sæti deildarinnar með 15 stig. Århus er líkt og Kolding með 15 stig eftir þennan sigur, en Århus er sæti ofar þar sem liði hefur betri markatölu en Kolding.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert