„Alltaf frábært að spila við hana“

Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var virkilega ánægður með fimm marka sigur síns liðs gegn ÍBV í síðustu umferð ársins í Olís-deild kvenna. Liðin áttust við í Vestmannaeyjum en leikurinn var aldrei spennandi, gestirnir leiddu frá fyrsta marki leiksins, til síðustu mínútunnar.

„Ég er ótrúlega ánægður að vinna fimm marka sigur hérna í Eyjum, maður vill alltaf vinna og þegar það er svona sannfærandi er maður mjög ánægður,“ sagði Stefán þegar mbl.is náði tali af honum eftir leik. 

Leikurinn var í raun aldrei spennandi þar sem að Ragnheiður Júlíusdóttir og Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoruðu á fyrstu mínútum leiksins en liðið leit aldrei til baka. 

„Við byrjuðum vel og spiluðum fyrri hálfleikinn mjög vel, seinni hálfleikurinn var ekki alveg eins vel spilaður af okkar hálfu, en sem betur fer náðum við að loka á ÍBV og vinna sannfærandi,“ sagði Stefán en hann telur að lykillinn hafi verið að hleypa ÍBV aldrei í jafna stöðu.

„Þær minnkuðu þetta niður í tvö mörk en við settum þetta aftur í fjögur, það var lykillinn að þær kæmust ekki nær.“

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir er þjálfari ÍBV en hún og Stefán þekkjast nokkuð vel eftir að hafa unnið ófáa titlana saman. 

„Það er alltaf frábært að spila við hana, hún er með skemmtilega handboltasýn og það er alltaf gaman að spila leiki á móti henni.“

Elísabet Gunnarsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir voru frábærar í liði Fram, með fimmtán mörk samtals. Voru þær lykilmenn liðsins í dag?

„Við erum með marga lykilleikmenn en þær eru mjög flottar, allt liðið stóð sig mjög vel og eins og ég segi er ég virkilega ánægður að vinna og fá tvö stig í Eyjum.“

Með sigrinum kemst Fram upp fyrir ÍBV í 3. sæti deildarinnar og senda ÍBV niður í 4. sætið í baráttuna við Stjörnuna um 4. sætið, mikilvægt hjá Fram, rétt fyrir jólafríið.

„Þetta er hörkubarátta um að komast í undanúrslit, það eru fimm lið að berjast um það. Hver sigur skiptir miklu máli,“ sagði Stefán glaður að lokum.

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert