Hver umferð kostar Val 4,5 milljónir

Valsmenn hafa náð langt í Evrópu. Jón Halldórsson formaður er …
Valsmenn hafa náð langt í Evrópu. Jón Halldórsson formaður er lengst til vinstri á myndinni. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Hver umferð Vals í Evrópukeppni í handknattleik kostar um 4,5 milljónir króna. 

Valsmenn taka á móti Steaua Búkarest annað kvöld á Hlíðarenda í 8-liða úrslitum Evrópubikarsins en Valsliðið er marki yfir eftir fyrri leikinn. 

Mbl.is ræddi aðeins við Jón Halldórsson, formann handknattleiksdeildarinnar hjá félaginu, og fræddist um kostnað þess að reka félagið í gegnum Evrópukeppninnar.

Evrópukeppnin út fyrir almennan rekstur

Stjórn handknattleiksdeildar Vals tekur Evrópukeppnir út fyrir almennan rekstur. Ástæðan fyrir því er að leikmenn þurfa að fjármagna þátttöku sína að lang stærstum hluta í Evrópukeppnum, en ekki deild. 

„Megnið af kostnaðinum þurfa leikmenn að borga úr eigin vasa en samtals hefur hver leikmaður greitt yfir milljón íslenskra króna,“ segir Jón Halldórsson.

Bætir hann þó við að viðkomandi bæjarfélög styðji við þátttöku en í litlu hlutfalli miðað við kostnað. 

Valsmenn mæta Steaua Búkarest annað kvöld.
Valsmenn mæta Steaua Búkarest annað kvöld. mbl.is/Óttar

Mest úr vasa leikmanna

Undanfarin þrjú tímabil hefur Valsliðið tekið þátt í 32 Evrópuviðureignum, 24 karlamegin og 8 kvennamegin. Kostnaðurinn við hvort tveggja er sambærilegur en í hverri umferð fyrir sig skiptir sköpum hvað ferðalagið sjálft kosti.

Kostnaðurinn við hverja umferð er um 4,5 milljónir króna.

Í leikmannahópi Vals að hverju sinni eru 16 leikmenn og kostnaður hvers og eins því í kringum 280.000 krónur fyrir hverja umferð.

Raunhæft til frambúðar?

„Er eðlilegt að afreksfólkið okkar þurfi sjálft að fjármagna að mestu leyti þennan kostnað?“ Spyr Jón. 

Bætir hann við að ekki séu til fjármunir til þess að styðja við liðin innan deildarinnar. Þá verður ríkið að stíga inn í.

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægi Evrópukeppna

„Íslensk lið verða að vera með í Evrópukeppnum til að auka getustig deildarinnar,“ segir Jón en hann telur að þrátt fyrir allan þennan kostnað sé þátttaka íslenskra liða í Evrópukeppnum nauðsynleg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert