Tengist kraftmiklum Kjarval

Júlía og Kjarval í sveiflu í landslagi sem minnir á …
Júlía og Kjarval í sveiflu í landslagi sem minnir á málverk eftir sjálfan Kjarval Morgunblaðið/Sigmundur

„Hann er mjög kraftmikill hestur og frekar viljugur. Hann er þó mjög skemmtilegur og til í allt,“ segir knapinn Júlía Kristín Pálsdóttir frá Flugumýri í Skagafirði um hestinn Kjarval frá Blönduósi. Júlía Kristín, sem er þrettán ára, keppir á Kjarval í barnaflokki á Hólum. 

Finnur ekki fyrir pressunni

Kjarval er efsta hrossið inn á mótið í barnaflokki en systir Júlíu Kristínar, Þórdís Inga Pálsdóttir, vann unglingaflokkinn á síðasta Landsmóti sem haldið var á Hellu. Þess má geta að Þórdís Inga keppir í flokki ungmenna í ár en verður á hestinum Straumi frá Sörlatungu. Júlía Kristín kveðst mjög spennt fyrir mótinu en hún tók líka þátt á síðasta móti.

„Það að vera á Landsmótinu er mjög ánægjulegt. Ég hef farið á öll Landsmót frá því að ég man eftir mér og það hefur alltaf verið jafngaman. Þetta er líka náttúrulega hérna fyrir norðan í ár sem skemmir ekki fyrir. Kjarval er líka einstakur hestur svo það er mjög skemmtilegt. Það er ekkert sérstaklega erfitt að stjórna honum,“ segir hún. Júlía Kristín segist ekki finna fyrir mikilli pressu þó svo hún sé að keppa á hesti sem systir hennar sigraði á á síðasta Landsmóti en segir þó stressið segja aðeins til sín.

„Ég vona bara að það gangi allt upp. Kjarval var fyrir sunnan í vetur svo kom hann norður og ég hef verið með honum síðustu mánuðina. Það er auðvelt að tengjast honum og við höfum náð að skapa sterk tengsl á milli okkar,“ segir hún.

Júlía Kristín kemur úr mikilli hestafjölskyldu og hefur hún verið í hestum frá því að hún man eftir sér.

„Fjölskyldan hefur alltaf stutt mig mikið í þessu. Bæði í keppnum og öðru. Ég reikna með því að maður verði í hestunum alla ævi þó svo ég sé kannski ekki búin að hugsa neitt rosalega mikið til framtíðar. Mig langar þó svolítið að fara á Hóla í skóla og vera þar með hestinum og læra,“ segir hún og bætir við að lokum að sumarið fari nær algjörlega undir keppnir. 

Júlía Kristín Pálsdóttir er ánægð með Kjarval og segist ekki …
Júlía Kristín Pálsdóttir er ánægð með Kjarval og segist ekki finna fyrir mikilli pressu þrátt fyrir að systir hennar Þórdís Inga Pálsdóttir hafi unnið unglingaflokk á sama hesti á síðasta Landsmóti sem haldið var á Hellu. Morgunblaðið/Sigmundur
Efstu hestar fyrir úrtöku
Efstu hestar fyrir úrtöku
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert