Tíu tilnefndir sem besti maður mótsins

FIFA hefur valið þá tíu leikmenn sem keppast um að verða útnefndur besti leikmaður heimsmeistaramótsins í Brasilíu. Af þeim eru sjö frá liðunum sem keppa til úrslita, fjórir Þjóðverjar og þrír Argentínumenn.

Mats Hummels, Toni Kroos, Thomas Müller og Philipp Lahm eru tilnefndir frá Þjóðverjum og Lionel Messi, Javier Mascherano og Angel Di Maria, sem reyndar hefur að öllum líkindum lokið keppni vegna meiðsla, hjá Argentínu.

Aðrir sem eru tilnefndir eru Hollendingurinn Arjen Robben, heimamaðurinn Neymar og James Rodríguez frá Kólumbíu, sem er talinn einna líklegastur til að hreppa hnossið, en hann er sem stendur markahæsti maður keppninnar.

FIFA tilnefndi einnig þrjá markmenn sem bítast um að verða valinn markmaður mótsins, en það eru Manuel Neuer, Þýskalandi, Sergio Romero, Argentínu, og Keylor Navas, Kostaríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert