Galia tryggði Tékkum sigur í Höllinni

mbl.is/Ómar

Tékkar sigruðu Íslendinga, 29:27, í vináttulandsleik í handknattleik sem fram fór í Laugardalshöllinni í dag. Það var fyrst og fremst Martin Galia markvörður Tékka sem tryggði þeim sigurinn með frábærri markvörslu í síðari hálfleiknum en hann kom í veg fyrir að Íslendingar næðu að jafna metin með því að verja hvað eftir annað frá þeim úr dauðafærum. Hann varði alls 26 skot í leiknum á meðan íslensku markverðirnir vörðu samanlagt 12 skot.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn, íslenska liðið oftast þó einu til tveimur mörkum yfir. Tékkar komust í 15:14 undir lok hálfleiksins en Ísland gerði tvö síðustu mörkin og Alexander Petersson kom Íslandi í 16:15 um leið og hálfleiksflautið gall.

Leikurinn var jafn fram að 20:20 en þá náðu Tékkar undirtökunum og voru með fjögurra marka forskot um tíma. Íslenska liðið sótti hart að þeim á lokakaflanum en nýtti ekki mörg góð færi til að skora hjá Galia. Staðan var 27:28 á síðustu mínútunni en þá náðu Tékkar að skora og tryggja sér sigurinn.

Mörk Íslands: Guðjón Valur Sigurðsson 7, Logi Geirsson 4, Snorri Steinn Guðjónsson 4, Ólafur Stefánsson 3, Ásgeir Örn Hallgrímsson 3, Arnór Atlason 2, Róbert Gunnarsson 2, Sigfús Sigurðsson 2. Þeir Arnór Atlason, Ragnar Óskarsson og Markús Máni Michaelsson náðu ekki að skora.

Roland Eradze stóð lengst af í markinu og varði 7 skot. Birkir Ívar Guðmundsson kom í markið síðustu 10 mínúturnar og varði 5 skot.

Philip Jicha og David Juricek voru markahæstir Tékkanna með 7 mörk hvor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert