HM: Ísland lagði Túnis með sex marka mun

Guðjón Valur Sigurðsson og Sverrir Jakobsson reyna að stöðva Tej …
Guðjón Valur Sigurðsson og Sverrir Jakobsson reyna að stöðva Tej Issam. AP

Íslenska landsliðið í handknattleik lék frábærlega í síðari hálfleik gegn Túnis í fyrsta leik liðsins í milliriðli heimsmeistaramótsins í Þýskalandi. Ísland sigraði 36:30. Ísland var þremur mörkum undir í hálfleik, 19:16.

Íslendingar lögðu grunninn að sigrinum með frábærum leikkafla um miðjan síðari hálfleik er staðan var 26:26 - en þá skoruðu Íslendingar fjögur mörk í röð, 30:26. Roland Valur Eradze varði vel í síðari hálfleik og alls 14 skot í leiknum en Birkir Ívar Guðmundsson hóf leikinn í markinu en náði aðeins að verja 1 skot.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði síðasta mark leiksins þar sem hann greip boltann á lofti í miðjum vítateig Túnisa eftir sendingu frá Loga Geirssyni. - Glæsileg tilþrif. Það voru mörg atvik sem glöddu augað í síðari hálfleik. Alexander Petersson skoraði m.a. mark með hægri en hann er örvhentur. Róbert Gunnarsson kastaði boltanum aftur fyrir sig og yfir markvörð Túnisa í síðari hálfleik og beitti þar einu helsta „vörumerki“ sínu.

Á morgun leika Íslendingar gegn Pólverjum í milliriðlinum en Ísland er sem stendur í efsta sæti riðilsins með 4 stig en alls eru 6 lið í riðlinum og komast fjögur þeirra áfram í 8-liða úrslit.

Mörk Íslands: Ólafur Stefánsson 8/2, Logi Geirsson 7, Snorri Steinn Guðjónsson 6/2, Guðjón Valur Sigurðsson 5, Alexander Petersson 4, Ásgeir Örn Hallgrímsson 3, Róbert Gunnarsson 3.

Róbert Gunnarsson brýst hér í gegnum vörn Túnisa.
Róbert Gunnarsson brýst hér í gegnum vörn Túnisa. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert