Frábær markvarsla tryggði Íslandi sigur á Slóveníu

Birkir Ívar Guðmundsson, markvörður íslenska liðsins, fagnar sigri á Slóvenum.
Birkir Ívar Guðmundsson, markvörður íslenska liðsins, fagnar sigri á Slóvenum. AP
Eftir Víði Sigurðsson í Halle/Westfalen vs@mbl.is
Frábær markvarsla hjá Birki Ívari Guðmundssyni og Rólandi Val Eradze tryggði Íslandi sigur á Slóveníu, 32:31, í milliriðlinum á HM í handknattleik í dag, og um leið sæti í átta liða úrslitum keppninnar. Það ræðst endanlega eftir leikinn gegn Þjóðverjum á morgun hverjir mótherjar Íslands í 8-liða úrslitunum verða á þriðjudaginn kemur.

Ísland og Þýskaland eru efst í riðlinum með 6 stig, Frakkar og Pólverjar eru með 4 en Pólverjar eru að leika við Túnis þessa stundina. Slóvenía er með 2 stig en Túnis ekkert.

Birkir Ívar varði hvorki meira né minna en 24 skot í leiknum og Roland, sem leysti hann fyrst af hólmi með því að verja vítakast, lék síðustu 10 mínúturnar og varði sex skot.

Slóvenar byrjuðu betur og komust í 3:1. Íslenska liðið svaraði því með frábærum kafla, skoraði fimm mörk í röð og komst í 6:3. Leikurinn sveiflaðist nokkuð, úr 9:5 í 9:8, síðan í 13:8 og 15:11, en Slóvenar náðu að minnka muninn í 17:15 áður en flautað var til hálfleiks.

Birkir Ívar kom í veg fyrir að Slóvenar jöfnuðu í byrjun síðari hálfleiks með því að verja þrívegis frá þeim úr dauðafærum. Ísland komst fyrir vikið í 20:17 en náði ekki að halda forskotinu og Slóvenar jöfnuðu í fyrsta og eina skiptið í leiknum, 21:21. Birkir Ívar varði eins og berserkur næstu mínútur og Ísland komst í 26:22. Í stöðunni 27:24 kom Róland í markið og varði vítakast, og skot af línunni í kjölfarið.

Ísland komst í framhaldi af því í 29:24 þegar 10 mínútur voru eftir og öruggur sigur blasti við. Róland varði annað vítakast í kjölfarið og sigurinn virtist í höfn.

En sóknarleikur Íslands gekk mjög brösuglega á lokakaflanum. Róbert Gunnarsson virtist þó hafa tryggt sigurinn þegar hann skoraði, 32:29. Í kjölfarið gat Logi gert út um leikinn en þá varði Lapanje vítakast frá honum. Tvö dauðafæri Íslands fóru í súginn í kjölfarið og Róland svaraði í sömu mynt í íslenska markinu.

En Kozlina og Natek bættu við mörkum fyrir Slóvena, 32:31, þegar enn voru 2 mínútur eftir. Þeir fengu síðan gullið tækifæri til að jafna 52 sekúndum fyrir leikslok þegar þeir hirtu boltann af Íslendingum og brunuðu upp í hraðaupphlaup - en Róland gerði sér lítið fyrir og varði. Íslenska liðið náði síðan að halda boltanum út leiktímann og sigurinn var í höfn eftir mikla taugaspennu í lokin.

Mörk Íslands: Logi Geirsson 8, Snorri Steinn Guðjónsson 7/3, Guðjón Valur Sigurðsson 4, Ólafur Stefánsson 4/1, Alexander Petersson 3, Markús Máni Michaelsson 2, Róbert Gunnarsson 2, Sigfús Sigurðsson 2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert