HM: Fyrrum Framarinn Per Skaarup hrósar íslenska liðinu

Ulrik Wilbek þjálfari danska landsliðsins.
Ulrik Wilbek þjálfari danska landsliðsins. Reuters

Per Skaarup, handboltasérfræðingur danska ríkisútvarpsins og fyrrum leikmaður Fram og danska landsliðsins, segir að Danir geti verið ánægðir með hvernig liðin röðuðu sér niður í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins. „Það gætu liðið 10 ár þar til að við fáum annað eins tækifæri á að komast í úrslitaleik HM,“ segir Skaarup en hann varar sína menn við íslenska liðinu. Hann telur að fá lið hafi komið eins óvart og það íslenska.

„Ég held að danska landsliðið ætti að undirbúa sig mjög vel fyrir leikinn gegn Íslendingum. Það vita allir að 7 manna byrjunarlið þeirra eru mjög sterkt og liðið hefur ekki verið þekkt fyrir mikla breidd í leikmannahópnum. Ég bendi hinsvegar á að íslenska liðið hefur skorað fjölmörg mörk úr stöðu vinstri skyttu, en sú staða var talin þeirra veikleiki,“ segir Skaarup og á þar við Loga Geirsson og Markús Mána Michaelsson.

Hann bendir einnig á að reynsla þeirra Alfreðs Gíslasonar og Guðmundar Guðmundssonar á varamannabekk Íslands geti skipt sköpum.

„Þeir eru þekktir fyrir að undirbúa sig vel og hafa báðir leikið yfir 300 landsleiki. Ég held að það séu fáar þjóðir sem hafa yfir eins mikilli reynslu að ráða í þjálfarateymi á HM,“ sagði Skaarup sem telur að það séu helmingslíkur á því að Danir leggi Íslendinga að velli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert