Spiluðum ekki nógu vel

Dagur Sigurðsson þjálfari Þjóðverja.
Dagur Sigurðsson þjálfari Þjóðverja. EPA

„Við spiluðum einfaldlega ekki nógu vel og þegar við fengum færin þá nýttum við þau mjög illa,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands, eftir fimm marka tap fyrir Króatíu, 28:23, á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Doha í Katar í dag. Úrslitin þýða að Þjóðverjar leika um sjöunda sæti mótsins á morgun en Króatar um fimmta sætið.

„Varnarleikurinn var ekki eins góður og hann hefur verið í þessu móti. Það má segja að eftir góðan upphafskafla þá hafi Silvio Heinevetter, markvörður, haldið okkur inn í leiknum. „Án hans hefðum við tapað með mikið meiri mun.

„Við byrjuðum nokkuð vel en síðan datt botninn úr leiknum hjá okkur eftir tíu til fimmtán mínútur og segja má að sóknarleikurinn hafi aldrei orðið almennilegur eftir það,“ sagði Dagur.  „Það var skarð fyrir skildi að Stefan Weinhold gat ekki leikið með okkur því það var lítið orðið eftir á tanknum hjá  unga stráknum, Jens Schöngarth, sem leysti hann af hólmi. Okkur vantaði taktinn sem verið hefur í leik okkar. Tilviljanir réðu of mikið ferðinni og menn fór að leita eftir auðveldum sendingum inn á línuna þar sem Króatarnir lásu okkur auðveldlega og hirtu hverja sendinguna á fætur annarri og keyrðu á okkur með hraðaupphlaupum. Því fór sem fór,“ sagði Dagur.

„Þegar við bættist að mörg opin færi fóru forgörðum hjá okkur var ekki við öðru að búast að svona færi.“

Dagur segir að það verði mikið verk að búa leikmenn sína undir lokaleikinn á morgun, annað hvort við Slóveníu eða Danmörk. „Það verður níundi leikur okkar í mótinu. Eftir tvo tapleiki í röð snýst undirbúningurinn fyrir þann leik fyrst og fremst að andlegu hliðinni.  Spurningin er sú hvað strákarnir vilja,“ segir Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands, í samtali við mbl.is eftir tapleikinn í íþróttahöllinni í Al-Sadd í Doha í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert