Dagur kallar á Glandorf

Holger Glandorf.
Holger Glandorf. AFP

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Evrópumeistara Þjóðverja í handknattleik karla, hefur kallað eftir starfskröftum stórskyttunnar Holger Glandorf, leikmanns Flensburg. Glandorf mun vera á leið til móts við þýska landsliðið í Rouen í Frakklandi. 

Glandorf, sem er örvhent skytta og leikur með Flensburg, hefur ekki leikið með þýska landsliðinu í tæp þrjú ár eftir að hafa gefið út að landsliðsferli sínum væri lokið. Vegna meiðsla varð hann við áskorun Dags fyrir heimsmeistaramótið að vera til taks og gefa þar með kost á sér í 28-manna leikmannahópinn sem tilkynna varð inn mánuði fyrir heimsmeistaramótið. 

Glandorf sagði þá að hann væri til í að aðstoða þýska liðið ef þörf væri á. 

Nú herma fregnir að Glandorf verði kominn í herbúðir þýska landsliðsins í kvöld og gæti tekið þátt í viðureigninni við Króata á föstudaginn en úrslit leiksins skera úr um hvort þýska eða króatíska landsliðið vinnur C-riðil heimsmeistaramótsins. Ljóst er að Dagur er að styrkja lið sitt undir átökin sem fram undan eru. 

Glandorf var í sigurliði Þýskalands á HM 2007. Hann á að baki 189 landsleiki sem hann hefur skorað í 574 mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert