Vona að við spilum enn betur og vinnum Ísland

Lino Cervar.
Lino Cervar. AFP

„Ég hrósa mínu liði fyrir leikinn í kvöld. Við sýndum mikla seiglu og nú bíður erfiður leikur á móti Íslendingum á morgun. Ég vona að við spilum enn þá betur og vinnum leikinn en það verður erfitt fyrir leikmennn að vera ferskir þegar svona stutt er á milli leikja,“ sagði hinn litríki Lino Cervar, þjálfari Makedóníumanna, á blaðamannafundi eftir ósigur sinna manna gegn Spánverjum í Metz í kvöld.

Þegar Cervar var spurður álits á íslenska liðinu vildi sá gamli lítið segja og vísaði bara á að það kæmi nýr dagur á morgun.

Leikurinn annað kvöld er hreinn úrslitaleikur um þriðja sætið í riðlinum. Tapi Íslendingar leiknum má fastlega reikna með því að íslenska liðið fari í keppnina um Forsetabikarinn en Makedóníumenn lenda aldrei neðar en í fjórða sæti í riðlinum.

Cervar, sem á tíma þjálfaði Króata, er eflaust lúinn eftir leikinn í kvöld sem og alla leiki sem hann stýrir liði sínu en í sextíu mínútur hleypur hann til og frá fyrir framan varamannabekkinn og skammar sína menn í gríð og erg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert