Síle á möguleika þrátt fyrir tap

Rodrigo Salinas frá Síle og Hisham Alobaidi frá Sádi-Arabíu í …
Rodrigo Salinas frá Síle og Hisham Alobaidi frá Sádi-Arabíu í leiknum í dag. AFP

Sílebúar eiga enn möguleika á að komast í sextán liða úrslit heimsmeistaramóts karla í handknattleik í fyrsta skipti þrátt fyrir ósigur gegn Sádi-Arabíu, 25:26, í lokaumferð C-riðils, en leiknum var að ljúka í Rouen.

Sádi-Arabar áttu möguleika á að komast áfram með því að vinna leikinn með fjögurra marka mun og treysta á að Hvít-Rússar næðu ekki í stig gegn Ungverjum síðar í dag. Eftir hnífjafna baráttu virtust þeir við það að ná takmarkinu þegar þeir komust í 23:20 fimm mínútum fyrir leikslok en Síle náði að jafna metin á ný. Madhi Alsalem skoraði sigurmark Sádi-Araba undir lokin.

Síle, Hvíta-Rússland og Sádi-Arabía eru því öll með 2 stig í fjórða, fimmta og sjötta sæti C-riðils. Síle er með bestu útkomu í innbyrðis viðureignum og fer því áfram ef lokastaðan verður sú sama. Hvít-Rússar eiga hins vegar eftir að mæta Ungverjum í kvöld, og nái þeir í stig úr þeirri viðureign fara þeir áfram en Sílebúar verða úr leik.

Nái Hvít-Rússar í stig í kvöld dettur Síle niður í neðsta sætið og verður því annaðhvort í fjórða eða sjötta sæti riðilsins. 

Liðið sem endar í fjórða sæti mætir Guðmundi Þ. Guðmundssyni og lærisveinum hans í danska landsliðinu í sextán liða úrslitum á sunnudaginn. Það getur orðið Síle, Hvíta-Rússland eða Ungverjaland, eftir því hvernig leikurinn fer í kvöld.

Argentína vann Barein örugglega, 26:17, í uppgjöri neðstu liða D-riðils og fékk sín fyrstu og einu stig. Hvorugt liðið gat komist áfram en Argentína keppir nú um sæti 17-20 og þar með um Forsetabikarinn, en Barein fer í keppni um sæti 21-24.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert