Náðum loksins góðum leik í 60 mínútur

Jussi Sipponen, spilandi þjálfari SA, í baráttu við mark Bjarnarins …
Jussi Sipponen, spilandi þjálfari SA, í baráttu við mark Bjarnarins í kvöld. Til varnar er Ellert Þórsson og Ómar Skúlason í markinu. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Jussi Sipponen, spilandi þjálfari SA Víkinga, var að vonum ánægður með sigur síns liðs á Birninum í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. SA skoraði sex mörk gegn engu marki Bjarnarins og var þetta í fyrsta skipti í vetur sem að Víkingar héldu hreinu.

„Þetta var bara liðssigur. Við náum góðri frammistöðu í 60 mínútur og það var það sem skóp þennan sigur. Síðan skiptu markvörslur Tim [Markvörður SA Víkinga] miklu máli. Vörnin hefur verið okkar vandamál í vetur og við höfum verið að vinna í henni markvist. Síðan kemur Tim og spilar sinn fyrsta leik og heldur hreinu,“ sagði Jussi Sipponen aðspurður hver hefði verið lykillinn að sigrinum í kvöld.

Timothy Noting er nýgenginn til liðs við SA Víkinga og skipti koma hans miklu máli fyrir liðið: „Auðvitað skiptir koma hans miklu máli. Í fyrsta lagi vorum við bara með tvo markmenn fyrir og ef annar þeirra hefði lent í meiðslum værum við í vandræðum. Tim er flottur markvörður og stóð sig vel í dag. Ungu strákarnir okkar hafa líka staðið sig vel í vetur. Þeir eiga eftir að læra helling af Tim. Hann mun einnig koma til með að sjá um markmannsæfingar hjá félaginu og kenna ungviðinu. Það er gott að fá hann,“ sagði Sipponen

Jussi Sipponen spilar í fyrstu línu SA Víkinga, ásamt Jordan Steger og Sigurði Sigurðssyni og mynda þeir þrír gríðarlega öfluga línu sem varnir andstæðinganna hræðast: „Það er allt útaf Sigga Sig [Sigurðir Sigurðssyni], gamla manninum í miðjunni. Nei án gríns þá erum við með tvær magnaðar sóknarlínur, með Andra Má og Jóhann Leifsson, ásamt Bart Maron í annarri línu. Þriðja línan okkar skilar síðan alltaf sínu. Spilar vörn og er liðinu mikilvæg,“ sagði Jussi

SA og Björninn mætast aftur á laugardaginn í Egilshöllinni og aðspurður um hvort Jussi myndi breyta einhverju fyrir leikinn brosti hann: „Ef ég myndi breyta einhverju myndi ég segja þér akkúrat öfugt við það sem ég myndi gera,“ sagði Jussi og hló „Nei, við munum ekki breyta neinu eftir svona sigur. Við unnum 6-0. Við treystum okkar skipulagi“ sagði Jussi Sipponen að lokum.

Þurfum að nota upphitunina betur

Ingþór Árnason, leikmaður Bjarnarins og fyrrum leikmaður SA Víkinga, var að vonum frekar svekktur eftir stórt tap Bjarnarins í kvöld.

„Við byrjuðum eiginlega ekkert fyrr en í þriðju lotu. Við höfum verið að gera það að undanförnu. Við vorum 3-1 undir gegn Esju um daginn og unnum leikinn 7-3.  Það er eitthvað sem er ekki alveg að smella í upphafi leikjanna. Við þurfum að gíra okkur í gang strax frá upphafi og nota upphitunina til þess að keyra okkur í gang,“ sagði Ingþór í spjalli við mbl.is eftir leik.

Tim Noting, markvörður SA Víkinga, reyndist gestunum erfiðiru ljár í þúfu og varði öll skot þeirra í kvöld. Þetta var fyrsti leikur hans á Íslandi: „Já þetta er stór markvörður og hann fyllir vel úti. Svo sýndi hann flotta takta í kvöld, hann kann alveg að verja. Við eigum samt alveg að geta komið pökknum framhjá honum, við gerum það bara á laugardaginn,“ sagði Ingþór en þessi lið mætast einmitt aftur á laugardaginn í Egilshöllinni.

„Það er nóg eftir af þessu móti. Við erum ekki hálfnaðir og við ættum að geta gert eitthvað. Það er engin ástæða fyrir því að hafa áhyggjur núna. Þetta er fljótt að breytast í svona lítilli deild,“ sagði Ingþór Árnason, varnarmaður Bjarnarins, að lokum.

Ingþór Árnason í kröppum dansi við þá Andra Mikaelsson, Ingvar …
Ingþór Árnason í kröppum dansi við þá Andra Mikaelsson, Ingvar Jónsson og Orra Blöndal hjá SA í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert