Njarðvíkingar á toppnum eftir stórsigur á Akureyri

Brenton Birmingham og félagar í Njarðvík eru efstir.
Brenton Birmingham og félagar í Njarðvík eru efstir. Ómar Óskarsson

Njarðvíkingar eru efstir í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir stórsigur gegn Þór á Akureyri í kvöld, 101:73. Grindavík lagði Íslandsmeistara KR í hörkuleik suður með sjó, 109:100, ÍR vann Tindastól örugglega í Seljaskóla, 93:74, og Skallagrímur vann Hamar í hörkuleik í Borgarnesi, 75:74.

Njarðvík er með 4 stig eftir tvo leiki en Keflavík og Stjarnan eru bæði með 2 stig eftir einn leik og leika á morgun, Stjarnan við Fjölni og Keflavík við Snæfell.

KR, Tindastóll, Þór A., ÍR, Skallagrímur og Grindavík eru öll með 2 stig eftir tvo leiki, Snæfell og Fjölnir eru án stiga eftir einn leik og Hamar eftir  tvo leiki.

ÍR - Tindastóll 93:74
Eftir jafnan fyrri hálfleik komu ÍR-ingar mjög grimmir til síðari hálfleiks og unnu þriðja leikhluta 30:18 og eftir það varð ekki aftur snúið. Staðan í leikhléi var 34:36 fyrir Tindastól, en vörn ÍR hrökk almennilega í gang eftir hlé og sigurinn nokkuð öruggur. Hreggviður Magnússon var stigahæstur með 21 stig en hjá Tindastóli var það Samir Shaptahovic sem gerði 17 stig.

Grindavík - KR 109:100
Grindvíkingar gerðu útum hörkuspennandi leik með því að skora tíu stig í röð í lokin en staðan var 99:99 þegar hálf önnur mínúta var eftir. Jonathan Griffin fór á kostum á þessum lokakafla. Páll Axel Vilbergsson skoraði 27 stig fyrir Grindavík og Griffin 23 en Joshua Helm og Avi Fogel gerðu 21 stig hvor fyrir KR.

Skallagrímur - Hamar 75:74
Áskell Jónsson skoraði sigurkörfu Skallagríms í blálokin. Borgnesingar voru yfir lengst af en Hamar virtist kominn með sigurinn í hendurnar á lokamínútunum. Darrel Flake skoraði 27 stig fyrir Skallagrím og Milojica Zokovic 23. Bojan Bojovic gerði 22 stig fyrir Hamar og George Byrd 16.

Þór - Njarðvík 73:101
Leikurinn var jafn lengi, staðan 47:47 í hálfleik, en síðan náðu Njarðvíkingar afgerandi forystu og unnu öruggan sigur. Jóhann Á. Ólafsson skoraði 22 stig fyrir Njarðvík og Brenton Birmingham 20 en Cedric Isom skoraði 22 stig fyrir Þór og Óðinn Ásgeirsson 21.

Sjá nánar um leikina í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert