Ginobili fór hamförum hjá meisturunum

Manu Ginobili.
Manu Ginobili. Reuters

Möguleg lokaúrslit á milli Los Angles Lakers og Boston Celtics - sem mörgum gömlum NBA „eðjótum" þætti gaman að sjá að nýju - færist nú nær með hverjum leiknum, þótt Detroit Pistons og San Antonio Spurs eigi enn eftir að segja sitt hvað það varðar. Boston hafði 2:1 forystu gegn Detroit fyrir fjórða leik liðanna í nótt, og Lakers er enn með 2:1 forystu gegn San Antonio eftir sigur Spurs á heimavelli á sunnudag.

Boston mætti loks til leiks á útivelli í úrslitakeppni Austurdeildar eftir góðan sigur á laugardag í Detroit, 94:80, í leik þar sem Celtics yfirspilaði heimaliðið frá byrjun. Boston hafði tapað öllum sex útileikjum sínum í keppninni, og eftir tap gegn Detroit á heimavelli í síðustu viku var augljóst að þar var breytinga þörf. Boston skoraði ellefu fyrstu stig leiksins og náði mest 24 stiga forystu sem Detroit náði aldrei að ógna. Kevin Garnett átti að venju stórleik hjá Boston með 22 stig og 13 fráköst, en hann hefur verið jafnbesti leikmaður liðsins í allan vetur og vor. Garnett er sá leikmaður Celtics sem allir líta upp til og það er fyrst og fremst atorka hans í leik liðsins sem drífur liðið áfram. „Við náðum loks góðum útisigri og nú þurfum við að vera með hugann við dæmið í næsta leik," sagði hann að leik loknum.

Vörnin er vandamál hjá Boston

Vandamál Boston það sem af er úrslitakeppninni er að varnaleikur liðsins hefur brotnað á mikilvægum augnablikum á útivelli, en hann hefur verið aðalsmerki liðsins í vetur. Þá hafa varamenn Celtics  brugðist í hverjum leiknum af öðrum, en í leiknum á laugardag voru bæði þessi atriði í lagi og ef svo heldur áfram í næstu leikjum er ég hræddur um að Detroit eigi ekki mikla möguleika í þessari leikseríu. Ekki hefur bætt úr fyrir Boston að Ray Allen, þriggja stiga maskínan sjálf, hefur hitt afleitlega í úrslitakeppninni. Hann hefur aðeins hitt úr tæplega þriðjungi þriggja stiga skota sinna, en hann hittir venjulega úr helmingi þeirra eða meira. Stundum hefur virst að hann gæti ekki hitt í stóra tunnu þótt hann stæði við hliðina á henni! Allen skoraði 14 stig fyrir Boston í leiknum á laugardag, en hitti aðeins úr einu af sex þriggja stiga skotum sínum. Ef Boston ætlar sér titilinn í ár er eins gott að Allen fari í gang.

Detroit virtist hafa náð yfirhöndinni í leikseríunni eftir góðan sigur í öðrum leik liðanna í Boston, en liðið lék hroðalega á heimavelli á laugardag. Chauncey Billups, leikstjórnandi Pistons, hefur sýnilega ekki enn náð sér af hnébótarsinameiðslum sínum, og ef hann er ekki heill verður erfitt fyrir liðið að komast í lokaúrslitin. Pistons mun eflaust hafa komið með betra hugarfari í leikinn í nótt, því ekkert nema sigur dugir nú ef liðið ætlar að framlengja þessa leikseríu.

Meistararnir vakna til lífsins

San Antonio Spurs raknaði við sér í úrslitarimmu Vesturdeildar gegn Los Angeles Lakers í þriðja leik liðanna á sunnudag. Spurs vann leikinn sannfærandi,103:84, og hefur þar með minnkað muninn í 2:1 í
leikseríunni. Bæði liðin eru taplaus á heimavelli það sem af er í úrslitakeppninni, þannig að hér virðist
sem að það lið sem fyrst vinnur útileik eigi gott tækifæri á að komast í lokaúrslitin.

Lakers  byrjaði þennan leik vel, en um miðjan fyrri hálfleik jafnaði heimaliðið leikinn og náði sína tíu tiga forystu í hálfleik, 49:39. Þeirri forystu náði Lakers ekki að ógna í seinni hálfleiknum og sigur Spurs var öruggur. Manu Ginobili, sem náði sér ekki á strik í tveimur fyrstu leikjunum í Los Angeles vegna meiðsla á löngutöng skothandar sinnar, blómstraði í leiknum og skoraði 30 stig fyrir Spurs. Tim Duncan bætti við 22 stigum og tók 21 frákast, og Toni Parker skoraði 20  stig. Þessir þrír leikmenn skópu sigur liðsins í þetta sinn og verða þeir allir að eiga eins góðan leik í fjórða leik liðanna í nótt til að jafna leikseríuna. Spurs skoraði úr tíu af 18 þriggja stiga skotum sínum, og fór þar fremstur í flokki Ginobili, sem skoraði úr fimm af alls sjö þriggja stiga skotum sínum.

„Get átt mína lélegu leiki“

„Manu er mikill keppnismaður. Hann er ávallt lykilmaður hjá okkur og veit að við reiðum okkur á  hann. Ég er löngu hættur á að telja hversu oft hann hefur tekið leikinn í sínar hendur, svo það kemur ekki á óvart þegar hann á stórleik eins og í kvöld,“ sagði Gregg Popovich, þjálfari Spurs í leikslok. Ginobili, sem kosinn var besti varamaðurinn í deildinni í ár, sagði að tveir síðustu leikir hafa verið erfiðir. „Ég get átt mína lélegu leiki, en eftir að fyrstu tvö skotin fóru niður var þetta auðvelt í kvöld," sagði hann.

Lakers-liðið virtist heillum horfið í þessum leik með 35% skotnýtingu, 47% vítahittni, og þrettán  töpuðum boltum. Hjá Lakers gekk ekkert upp og þeir Derek Fisher og Lamar Odom skoruðu aðeins níu stig samtals, með þrjár körfur úr fimmtán skotum, en þessir tveir leikmenn hafa verið burðarrásir fyrir Lakers undanfarið. Pao Gasol gekk illa að finna sig lengst af og búast má við að þessir leikmenn muni bæta leik sinn í leiknum í nótt, sem ætti að verða jafnari. Kobe Bryant setti 30 stig, en tók 23 skot til að ná þeim. Hann átti aðeins eina stoðsendingu, en það var dæmigert fyrir leik liðsins. Lakers átti aðeins þrjár stoðsendingar í fyrri hálfleiknum, sem sýnir að sóknarleikur liðsins var úr skorðum.„Það skiptir ekki máli hversu mörg stig ég skora, ef við getum ekki stoppað andstæðinginn er tap fyrirsjáanlegt. Kannski verður það góður lærdómur fyrir okkur að vera  rassskelltir af meisturunum,“sagði Bryant.

Með sigrinum er augljóst að Spurs er komið með annan fótinn inn í þessa leikseríu, en sigur gegn Lakers í nótt er nauðsynlegur, því Lakers mun ekki tapa þremur leikjum í röð í leikseríunni. Phil Jackson, þjálfari Lakers, mun örugglega finna leið til að ýta undir sína menn fyrir leikinn í nótt, en með sigri Spurs hefur nú færst fjör í leikinn hér.


Kevin Garnett treður boltanum í körfu Detroit.
Kevin Garnett treður boltanum í körfu Detroit. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert