Erum nógu ungir og heimskir til að sigra

Kobe Bryant skorar mikilvægustu stig Lakers í gær gegn Boston.
Kobe Bryant skorar mikilvægustu stig Lakers í gær gegn Boston. Reuters

Kobe Bryant skoraði 25 stig í 103:98-sigri LA Lakers gegn Boston Celtics í úrslitum NBA-deildarinnar og þurfa liðin að mætast í sjötta sinn í Boston þar sem að staðan er 3:2 fyrir Boston Celtics. Bryant sýndi varnartakta á lokasekúndum leiksins þar sem hann stal boltanum af Paul Pierce, brunaði upp völlinn, og tróð boltanum í körfuna. Og þar með kom leikmaður ársins í NBA-deildinni í veg fyrir að Boston myndi fagna fyrsta meistaratitlinum frá árinu 1986 í Los Angeles.

„Þetta var nauðsynlegt fyrir liðið. Að ná að skora auðvelda körfu. Ég sá tækifærið og nýtti það,“  sagði Bryant í leikslok. Lamar Odom skoraði 20 stig og tók 11 fráköst fyrir Lakers. Spánverjinn Pau Gasol hrökk í gang og skoraði 19 stig og tók 13 fráköst. Ekkert lið í NBA-deildinni hefur náð að snúa taflinu sér í hag eftir að hafa lent 3:1 undir.

„Við erum nógu ungir og heimskir til þess að ná því,“ sagði Phil Jackson þjálfari Lakers sem hefur níu sinnum fagnað sigri í NBA sem þjálfari.

Paul Pierce skoraði 38 stig fyrir Boston en hann náði frákasti þegar nokkrar sekúndur voru eftir og staðan var á þeim tíma, 97:95. „Ég átti ekki að gefa færi á því að stela boltanum af mér. Ég er mjög svekktur og það verður erfitt að kyngja þessu,“ sagði Pierce.

Ray Allen skoraði 16 stig fyrir Boston, Kevin Garnett var með 13 stig og 14 fráköst.

Boston: Paul Pierce 38, Ray Allen 16, Kevin Garnett 13, Sam Cassell 9, Tony Allen 6, Eddie House 6, P.J. Brown 4, James Posey 3, Rajon Rondo 3.

Los Angeles: Kobe Bryant 25, Lamar Odom 20, Pau Gasol 19, Derek Fisher 15, Jordan Farmar 11, Vladimir Radmanovic 7, Sasha Vujacic 4, Luke Walton 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert