Chicago lagði Boston á útivelli

Kevin Garnett fylgist spariklæddur og áhyggjufullur með félögum sínum í …
Kevin Garnett fylgist spariklæddur og áhyggjufullur með félögum sínum í Boston í kvöld. Reuters

Chicago Bulls kom skemmtilega á óvart í kvöld með því að sigra meistara Boston Celtics á útivelli, 105:103, í framlengdum leik í 1. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinanr í körfuknattleik. Cleveland Cavaliers fór hinsvegar létt með Detroit Pistons á heimavelli, 104:82.

Derrick Rose lék sinn fyrsta leik í úrslitakeppni og jafnaði met gömlu hetjunnar Kareems Abdul-Jabbars með því að skora 36 stig fyrir Chicago í frumraun sinni á þeim vettvangi. Rose átti jafnframt 11 stoðsendingar fyrir Chicago, sem nú er búið að snúa heimaleikjaréttinum sér í hag í einvígi liðanna.

„Vonandi dugar þetta til að vekja okkur, vonandi átta menn sig á því að leikmenn Chicago séu ekki bara sáttir við að hafa komist í úrslitakeppnina. Nú þurfum við að taka okkur tak," sagði Paul Pierce, sem skoraði 23 stig fyrir Boston. Rajon Rando var stigahæstur hjá meisturunum með 29 stig en ljóst var að fjarvera Kevins Garnetts er liðinu afar erfið.

„Hann sat á bekknum í fyrri hálfleik en við vorum átta stigum undir. Þetta snýst um þá sem spila hverju sinni. Kevin er úr leik og spilar ekki meira. Strákarnir í búningunum þurfa að sjá um þetta," sagði Doc Rivers, þjálfari Boston.

Cleveland var ekki í nokkrum vandræðum með Detroit og LeBron James skoraði 38 stig, tók 8 fráköst og átti 7 stoðsendingar fyrir liðið sem náði besta árangrinum í deildakeppninni í vetur.  Rodney Stuckey var stigahæstur hjá Detroit með 20 stig.

LeBron James gerði lítið úr meistaravæntingum til síns liðs. „Pressan er á Celtics og Lakers, þar eru mestu væntingarnar. Ekki hjá okkur. Við förum bara inná völlinn og gerum það sama og við höfum gert í allan vetur," sagði James.

Fyrstu leikirnir úrslitakeppni Vesturdeildarinnar fara fram í nótt en leikur San Antonio og Dallas hefst klukkan eitt að íslenskum tíma og leikur Portland og Houston klukkan hálf fjögur.

Fjóra sigurleiki þarf til að komast áfram úr einvígjunum átta í fyrstu umferðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert