Golden State aftur á sigurbraut

Gorgui Dieng hjá Minnesota og Stephen Curry hjá Golden State …
Gorgui Dieng hjá Minnesota og Stephen Curry hjá Golden State í leik liðanna í nótt. AFP

Topplið Golden State Warriors komst á sigurbraut á ný í nótt með því að sigra Minnesota Timberwolves, 110:97, í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Golden State hafði tapað tveimur leikjum í röð og hikstað í fyrsta sinn á tímabilinu eftir 23 sigra í fyrstu 26 leikjunum. Stephen Curry skoraði 25 stig og Klay Thompson 21 fyrir toppliðið sem var lengi að hrista gestina af sér. Þetta var níundi heimasigur Golden State í röð og það er besti árangur liðsins í 20 ár.

Toronto Raptors, Kanadaliðið sem nú er efst í Austurdeildinni, sýndi styrk sinn með því að sigra LA Clippers á útivelli í Staples Center, 110:98. Þetta var fyrsta tap Clippers á heimavelli í níu leikjum. Kyle Lowry skoraði 25 stig fyrir Toronto en breiddin gerði útslagið fyrir liðið því leikmenn sem ekki voru í byrjunarliðinu skoruðu 18 af 30 stigum þess í fjórða leikhluta. Jonas Valanciunas skoraði 22 stig fyrir Toronto en J.J. Redick var stigahæstur hjá Clippers með 23 stig og DeAndre Jordan tók 20 fráköst.

Jimmy Butler átti stórleik með Chicago Bulls og skoraði 33 stig þegar lið hans vann New Orleans Pelicans, 107:100. Anthony Davis gerði 29 stig fyrir New Orleans í fyrsta NBA-leik sínum í fæðingarborg sinni, Chicago.

Memphis Grizzlies vann Miami Heat á útivelli, 103:95, en Mike Conley var þar með 24 stig og Spánverjinn Marc Gasol 22. Dwyane Wade var stigahæstur hjá Miami með 25 stig.

Kemba Walker setti persónulegt met með því að skora 42 stig fyrir Charlotte Hornets, en varð samt að sætta sig við að vera í tapliði gegn Orlando Magic á heimavelli. Lokatölur urðu 94:102 og Nikola Vucevic skoraði 22 stig fyrir Orlando.

DeMarcus Cousins skoraði 39 stig fyrir Sacramento Kings sem vann New York Knicks í framlengdum leik, 135:129.

Úrslitin í nótt:

LA Clippers - Toronto 98:110
Charlotte - Orlando 94:102
Washington - Boston 101:88
Miami - Memphis 95:103
Chicago - New Orleans 107:100
Brooklyn - Indiana 85:110
Milwaukee - Atlanta 85:90
Utah - Philadelphia 88:71
Sacramento - New York 135:129 (framlenging)
Golden State - Minnesota 110:97

Efstu lið í Austurdeild: Toronto 23/7, Atlanta 22/8, Washington 21/8, Chicago 21/9, Cleveland 18/11, Milwaukee 15/16.

Efstu lið í Vesturdeild: Golden State 24/5, Portland 24/7, Houston 21/7, Memphis 22/8, Dallas 21/10, LA Clippers 20/11.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert