Vantar karakter í liðið

Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka
Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka mbl.is/KRISTINN

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var að vonum brúnaþungur eftir tap liðsins, 74:86, gegn Tindastóli í kvöld. Haukar eru þar með 0:2 undir í undarúrslitaeinvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik og Stólunum nægir því sigur í næsta leik til að komast í úrslit.

„Við töpuðum þessu í öðrum leikhluta. Menn byruðu að hengja haus og við vorum einfaldlega ekki nógu harðir, það er málið“, sagði Ívar við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

Einn besti leikmaður Hauka í vetur, Alex Francis, skoraði aðeins sjö stig í kvöld og sat á bekknum stóran hluta af öðrum leikhluta. „Hann var bara slakur í öðrum leikhluta og þá er hann tekinn út af eins og aðrir leikmenn þegar þeir eru slakir. Það er erfitt þegar við missum svona öflugan leikmann í framlagi. Við fengum ekki framlag frá öðrum í staðinn, því miður.“

Haukar fara norður yfir heiðar og spila í Síkinu, þar sem þeir verða að vinna til að detta ekki úr leik. Hvað þarf að breytast hjá þeim fyrir þann leik? „Við erum bara að spila „soft“ og það er eins og við séum ekki tilbúnir í þessa baráttu, eins og menn séu bara sáttir við að vera komnir hingað. Við erum slakir og að spila illa núna og það vantar karakter í liðið,“sagði Ívar Ásgrímsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert